Skipið hallar 45 gráður á skerinu
20 manna áhöfn Guðrúnar Gísladóttur KE var bjargað af norsku strandgæslunni eftir að skipið strandaði í Nappstraumen í Lófóten í Noregi í morgun. Áhöfnin varð að yfirgefa skipið og fór í björgunarbáta.Tilkynning um óhappið barst til stjórnstöðvar norsku björgunarsveitanna í Norður-Noregi kl. 10.55 að norskum tíma eða kl. 8.55 að íslenskum tíma. Sendar voru út björgunarþyrlur og fjögur skip sem voru í nágrenninu fóru strax á vettvang. Þar á meðal var strandgæsluskipið Åhav sem bjargaði áhöfninni, sem var í tveimur björgunarbátum, um 30 mínútum eftir að neyðarkall var sent út. Skipið er á leið með áhöfnina til Ballstad að sögn norska blaðsins Nordlys.Guðrún Gísladóttir KE sem er eitt nýjasta og öflugasta skip íslenska flotans er um einn kílómetra frá landi og sjór rennur inn í vélarrúmið. Í skipinu eru 900 tonn af síldarflökum og 300 tonn af olíu í geymum. 45° slagsíða er á skipinu. Strandgæsluskipið Tromsö er á leið á slysstaðinn og verður reynt að dæla olíunni úr tönkunum til þess að forðast mengunarslys. Gott veður er á slysstaðnum og ekki er vitað um ástæður þess að skipið strandaði.
Frétt af InterSeaFood.com
Frétt af InterSeaFood.com