Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skessudagar í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 13. nóvember 2008 kl. 13:16

Skessudagar í Reykjanesbæ

Haldin verður barnahátíð í Reykjanesbæ laugardagana 22. og 29. nóvember n.k. þar sem Skessan í fjallinu mun bjóða öll börn á landinu velkomin. Boðið verður upp á dagskrá á mörgum stöðum í Reykjanesbæ og verður lögð áhersla á að börnin verði í forgangi nú í kreppunni.

„Við erum fjölskylduvænt samfélag og við viljum í samvinnu við félög, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu safna saman þeim tækifærum sem bjóðast til samverustunda og leikja. Við erum þegar búin að setja saman verulega dagskrá og vonumst eftir góðri samstöðu bæjarbúa. Nú þegar ástandið er svona er mikilvægt að við hugum að börnunum okkar og finnum eins margar samverustundir með þeim og mögulegt er. Skessan er einn nýjasti íbúinn í Reykjanesbæ og hún vill taka þátt í þessu átaki. Við hvetjum krakka til að skrifa henni bréf og koma þeim til hennar þessa tvo laugardaga,“ sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri um skessudaga í Reykjanesbæ.

Í veglegri dagskrá Skessudaga verður margt í boði um allan Reykjanesbæ s.s. tónlist, upplestur, skuggaleikhús, íþróttir og margt fleira. Meðal annars verður lesið upp úr bókum Herdísar Egilsdóttur barnabókahöfundar um Siggu og skessuna í fjallinu á bókasafninu, í stekkjarkoti verður jólahald fyrri tíma kynnt og hægt verður að skoða víkingaskipið Íslending og sýninguna Orkuverið Jörð.  Ýmis gallerí munu sýna framleiðslu sína og í Duushúsum verður boðið upp á ratleik og sýningu á myndinni um Diddu og dauða köttinn. Þá verður einnig hin stórskemmtilega Gilli gill tónlistarskemtun í listasalnum.

Á gamla vallarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli verður margt í boði. Boðið verður upp á gerð skuggaleikhúss í Listasmiðjunni og rúlluskautaball í hjólaskautahöllinni sem var mjög vinsæl hjá börnum varnarliðsmanna á Keflavíkurflugvelli.
og innileiksvæði verður opið.

Hátíðarstrætó mun ganga á alla staði á klukkutíma fresti. Vonast er til að mörg fyrirtæki og verslanir muni bjóða upp á tilboð í tilefni Skessudaga. Einnig er stefnt að því að vera með markaðstorg á 2. hæð Svarta pakkhússins.

Unnið er á fullu við undirbúning dagskrárinnar og er fólk hvatt  til að senda hugmyndir eða spurningar á [email protected]


Ljósmynd/elg: Skessuhellirinn í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024