Skemmtilegur suðupottur á Með blik í auga #2
Frumsýning á Með blik í auga - gærur, glimmer og gaddavír fékk frábærar viðtökur í Andrews leikhúsinu á Ásbrú í gærkvöldi. Fjölbreytt lagaval frá árunum 1970 til 1980 var efni sýningarinnar og er óhætt að segja að komið sé víða við í skemmtilegri dagskrá og fengu söngvarar og tónlistarmenn mikið lófaklapp í lokin.
Sýningin opnar með hinu frábæra lagi sem allir söngvarar syngja „Ég elska alla“ eftir þá Gunnar Þórðarson og Þorstein Eggertsson og það gaf tóninn fyrir það sem í vændum var, mikið fjör og skemmtilegur flutningur fjölbreyttra laga. Fríða Dís Guðmundsdóttir úr Klassart fylgdi þessu eftir með laginu „Þín innsta þrá“ og „Góða ferð“ og síðan komu feðgarnir Valdimar Guðmundsson og Guðmundur Hermannsson í fyrsta skipti saman og sungu lagið „Barn“ eftir Ragga Bjarna og Stein Steinars. Áfram er farið yfir tónlistarsöguna á þessum áratug og lög eftir hina ýmsu aðila ómuðu í gamla bíóhúsi Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli, það er hægt að nefna lög sem Ingimar Eydal gerði ódauðleg og Eyjamaðurinn Gylfi Ægisson. Hlynur Þór Valsson er ekki þekktur söngvari en hann söng lagið „Minning um mann“ og gerði það mjög vel. Það voru fleiri söngvarar sem voru að stíga sín fyrstu alvöru skref eins og ungu dömurnar Sólborg Guðbrandsdóttir og Melkorta Rós Hjartardóttir. Enginn ungur Suðurnesjapeyi var í hópi söngvaranna en líklega var stórstjarnan Valdimar Guðmundsson þeirra yngstur. Hann var náttúrulega frábær í öllum lögunum sem hann söng en faðir hans og frændur komu skemmtilega á óvart. Þeir Karl, Eiríkur og Guðmundur Hermannssynir sungu syrpu saman, m.a. lagið „Léttur í lundu“ eftir Kalla sjálfan en hann var jú fyrsti söngvari Hljóma.
Það er ekki hægt annað en að lofa sýninguna. Það er þó hætt við því að fólk í yngri kantinum kannist ekki við nema fá lög sem er eðlilegt því lögin eru frá 1970-80. Textasamantektin er góð og blandast skemmtilega við tónlistina. Það er lagt meira í búninga og útlit á sviði en í fyrra og það er gott og fleiri lítil dæmi sem skipta máli gerðu pakkann flottari. Í prentaðri dagskrá sýningarinnar segja forsprakkarnir Kristján Jóhannsson og Arnór Vilbergsson að áratugurinn '70-80 sé í raun stórfurðulegur tónlistarlega séð. Suðurpottur ólíkra strauma og undir það er hægt að taka. Það er kannski það eina sem undirritaður getur sett út á er að væntingar voru meiri í þá áttina að gera tónlist frá bítlabænum Keflavík hærra undir höfði því af nógu er að taka á þeim bænum. En prógrammið er ekki sett þannig upp og gerir það líka að verkum að hægt væri að fara með það út fyrir Suðurnesin.
Aðrir söngvarar sem ekki hafa verið nefndir hér að framan eru Arnar Dór Hannesson, Bríet Sunna Valdimarsdóttir og Guðbrandur Einarsson sem kom skemmtilega á óvart þegar hann tók hljóðnemann. Hljómsveitin undir stjórn Arnórs er mjög góð eins og langt flest í sýningunni.
Það er ekki hægt annað en að hvetja Suðurnesjamenn til að fara á sýninguna. Næsta sýning er kl. 22 í kvöld og svo er kvöldsýning á sunnudag. Þá eru fáir miðar eftir en fleiri í boði í kvöld.
Feðgarnir Valdimar og Guðmundur saman í fyrsta sinn á sviði.
Bríet Sunna, Fríða Dís, Sólborg og Melkorka í stuði á sviðinu.
Bræðurnir Eiríkur, Guðmundur og Karl Hermannsson sungu saman.
Magnús Kjartasson og Gunnar Þórðarson eiga lög í sýningunni. Á milli þeirra er Magnús Torfason, tannlæknir og einn af gullaldarknattspyrnudrengjum Keflavíkur.
Húsfyllir var á frumsýningunni. Hér má sjá nokkra gesti í hlénu. VF-myndir/pket.