Skemmtilegasti aðalfundur ársins á fimmtudag
Fimmtudagskvöldið 26. febrúar verður skemmtilegasti aðalfundur ársins haldinn.
 
Skátafélagið Heiðabúar boðar til aðalfundar í skátaheimili félagsins að Hringbraut 101, Reykjanesbæ. Fundurinn hefst stundvíslega klukkan 20:00 og eru allir áhugasamir hvattir til þess að líta við og kynna sér hið stórmerkilega starf sem fram fer í skátafélaginu.
 
Á fundinum verður kjörin nýr félagsforingi en Bjarni Páll Tryggvason félagsforingi Heiðabúa síðastliðin sex ár mun stíga til hliðar og nýr félagsforingi verður kosinn.
Einnig mun á fundinum verða kosið um bráðskemmtilega lagabreytingatillögu.
 
Líkt og áður segir þá gefa Heiðabúa lofforð um skemmtilegasta aðalfund ársins, enginn barlómur um neikvæðar rekstrartölur og erfiðleika í rekstri. Hagræðingar og sparnaðarumræður bannaðar. Ekkert nema jákvæðni og félagslegur hagnaður, ungu fólki á suðurnesjum til heilla.
 
Að fundi loknum verður boðið upp á veitingar að skátasið. Klikkið ekki á því að mæta.
 
Skátakveðja
Stjórn Heiðabúa

 





 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				