„Skemmtilegasta sjálfboðastarfið“
- Sjónvarp Víkurfrétta kíkti í Rauða kross búðina
Fatagámarnir við húsnæði Rauða krossins í Reykjanesbæ eru fljótir að fyllast enda gefa Suðurnesjamenn um eitt tonn af fötum þangað í hverri viku. Hluti fatnaðarins er seldur í Rauða kross búðinni í Reykjanesbæ og það sem eftir verður er selt í öðrum verslunum Rauða krossins og sent úr landi og selt.
Halldóra Blöndal, verkefnisstjóri hjá Rauða krossinum á Suðurnesjum, segir mikilvægt að fólk hafi í huga að öll vefnaðarvara sé nýtt. „Ekki henda neinum fötum í tunnuna,“ segir hún. Allir sem vinna í búðinni og við fataflokkun gera það í sjálfboðastarfi. „Þetta er skemmtilegasta sjálfboðastarf sem þú getur unnið. Það er gaman að sjá fólk sem kemur til okkar að vinna og er að stíga fyrstu skrefin aftur út á vinnumarkaðinn. Það kemur bogið í baki og hefur ekki hitt fólk í langan tíma en svo réttist úr því og það verður eitt af samfélaginu. Margir eru farnir í ræktina og við tölum mikið um mataræði og hreyfingu. Það er svo margt í kringum þetta og enginn fær borgað heldur fáum við ánægjuna og gleðina og að gera eitthvað fyrir aðra.“
Innslag úr heimsókn Sjónvarps Víkurfrétta í Rauða kross búðina má sjá hér fyrir neðan.