Skemmtilega leiðinlegt
- Lokaorð Sævars Sævarssonar
Ég er rosalegur aðdáandi leiðinlegs fólks. Því leiðinlegra sem fólk er, samkvæmt hinum almenna mælikvarða leiðinda, því skemmtilegra þykir mér það í raun. Ég kýs að kalla þetta fólk „skemmtilega leiðinlegt“, þ.e. það er svo djöfulli leiðinlegt að það fer í raun hringinn og verður skemmtilegt. Margir af mínum bestu vinum eru einmitt ævintýralega leiðinlegir.
Því miður er leiðinlegt fólk á undanhaldi og það sama má í raun segja um fólk með alls kyns sérstöðu, sérstöðu sem í fyrstu kann að teljast galli í fari viðkomandi en þegar betur er að gáð er þessi sérstaða það sem gerir viðkomandi að því sem hann er. Hér er ég að tala um einkenni eins og nísku, feimni, þvermóðsku, frekju og tuð sem eru karakterseinkenni sem þóttu algeng fyrir nokkrum árum en virðast vera að deyja út ásamt leiðindum og fleiri „skemmtilega leiðinlegum“ einkennum.
Ég held að þetta sé hluti af alheimskrísu, vandamáli sem er fólgið í því að fólk virðist einhvern veginn vera að steypast í sama mótið. Karakterseinkenni eru að hverfa og við erum öll að verða straumlínulöguð og eins. En eins og einhver óvenju jákvæður maður sagði fyrir einhverjum árum í Eitthvaðistan eru vandamálin til þess að tækla þau. Með samstilltu átaki skulum við tækla þetta vandamál í sameiningu. En hvernig?
Jú, hættum að vera straumlínulöguð – förum að vera leiðinleg!