Skemmtileg GRÍS í bítlabænum
Sagan um krakkana í Rydell High skólanum hefur nú ratað í Frumleikhúsið í Keflavík. Grunnskólakrakkar stíga á svið í bítlabænum og syngja og dansa í GRÍS á aðdáunarverðan hátt.
Þessi heimsfrægi söngleikur (Grease) var fyrst settur á svið í Chicago árið 1972 en samnefnda kvikmynd þekkja nánast allir þar sem þau John Travolta og Olivia Newton John voru í aðalhlutverki en hún var frumsýnd 1978. Uppfærslur Grease skipta hundruðum um heim allan og söngleikurinn hefur verið þýddur á yfir tuttugu tungmálum.
Rúmlega tuttugu krakkar taka þátt í GRÍS og eru öll mikið á sviðinu. Í leikstjórapistli þeirra Guðnýjar Kristjánsdóttur og Höllu Karenar Guðjónsdóttur kemur fram að mun færri komust að en vildu þegar áheyrnarprufur fóru fram síðasta vor. Þær tvær eru kynntar í leikskrá undir nafninu „Gylturnar“ og setja upp sýninguna í samvinnu við Leikfélag Keflavíkur þar sem þær hafa líka verið í framlínunni í mörg ár.
Tónlistin skipar stóran sess í sýningunni en líka dans og þetta er skemmtilegt bland í söngleiknum sem er með lög sem margir þekkja eins „Sandy“, „Summer nights“ og „Greased lightnin“. Klæðnaðurinn er flottur og sviðsmyndin fín. Þær Guðný og Halla hafa náð öllu því besta út úr þessum krökkum og þau standa sig mjög vel. Í aðalhlutverki eru þau Perla Sóley Arinbjörnsdóttir sem leikur Sandy og Valþór Pétursson er í hlutverki Danny. Þau gera það bæði vel eins og reyndar allir í sýningunni. Nær allir leikararnir eru að stíga sín fyrstu skref á sviði og mörg þeirra geta eflaust átt framtíð fyrir sér í leiklist. Án þess að greina sérstaklega frammistöðu hvers og eins þá er ekki hægt annað en að minnast á frammistöðu Elmu Rúnar Kristinsdóttur. Hún er dansar, syngur bakraddir og syngur ein á sviðinu í hlutverki engils í sýningunni. Brosmild og með frábæra dans- og sönghæfileika er ljóst að hún er með'etta eins og sagt er.
Annars er stórkostlegt að sjá krakkana koma fram, ýmist eina að syngja á sviðinu eða með öðrum. Það er ekki öllum krökkum á unglingsaldri gefið að koma fram, syngja og dansa fyrir fullu húsi af fólki. Þau munu án efa aldrei gleyma þessari lífsreynslu og ekki má heldur gleyma að gefa leikstjórunum stórt prik fyrir að fara í svona viðamikla sýningu með unglingum. Bítlabærinn stendur svo sannarlega undir nafni í GRÍS og ég hvet alla til að mæta í Frumleikhúsið. Maður fer bæði hissa og stoltur heim að lokinni sýningu.
Páll Ketilsson.