Skátastemmning í Garði alla helgina
Svokallaðir Smiðjudagar fóru fram í Garði um helgina en um er að ræða skátamót sem haldið er árlega á þessum tíma. Mótið er haldið samhliða JOTA og JOTI sem er alþjóðlegt skátamót haldið um allan heim þess helgi.
Mótið fer þannig fram að JOTA (Jamboree On The Air) fer fram í gegnum talstöðvar og markmiðið er að ná sambandi við sem flest lönd þessa helgi. JOTI (Jamboree On The Internet) snýst aftur á móti að notaða tölvur til að hafa samskipti við aðra skáta um allan heim í gegnum IRC hugbúnað.
Dagskrá mótsins hófst á föstudagskvöldið með miðnætursundi í sundlauginni í Garði og að því loknu var farið á netið og spjallað við skáta um allan heim fram undir morgun.
Á laugardaginn var siguð úr vitanum, byggðasafnið skoðað og fengist við brjóstsykurgerð. Um kvöldið var slegin upp kvöldvaka í félagsheimilinu að hætti skáta.
130 skátar á aldrinum 14 - 20 ára frá 15 skátafélögum tóku þátt í mótinu, sem haldið var í fimmtánda sinn. Þetta var jafnframt í annað sinn sem það var haldið hér á Suðurnesjum en það var haldið í Njarðvík fyrir nokkrum árum.
Vildu aðstandendur mótsins koma kæru þakklæti á framfæri til bæjaryfirvalda í Garði fyrir velvild og veitta aðstoð.