Skapandi skrif í skapandi rými
Upptökuver í gamla bænum í Keflavik
Það er ekki frá því að þau séu nokkuð þreytt hjónin Anna Margrét Ólafsdóttir og Ingi Þór Ingibergsson þegar ég hitti þau í gamla bænum á dögunum en þau hafa staðið í ströngu við að koma í stand skapandi rýminu Lubba Peace þar sem þau héldu fyrsta námskeið nýlega. Þau eru himinlifandi með fyrsta verkefnið sem heppnaðist að þeirra sögn einstaklega vel og gefur tóninn fyrir þá starfsemi sem þau hafa séð fyrir sér fyrir skapandi einstaklinga á Suðurnesjum og víðar.
„Við vorum með námskeið í skapandi skrifum og fengum til okkar hana Vigdísi Grímsdóttur rithöfund sem gerði þetta einstaklega skemmtilega enda er hún bæði klár og alveg hrikalega fyndin,“ segir Anna Margrét en hún hafði áður sjálf setið námskeið hjá Vigdísi og vissi því hverju nemendur gætu átt von á.
Kakó frá Guatemala
Hver dagur hófst á hugleiðslu og kakó frá Guatemala áður en að vinna hófst og fengu nemendur að snæða þess á milli hjá þeim hjónum en Lubbi Peace hefur aðsetur í heimilislegu bakhúsi við heimili þeirra á Vallargötu.
„Á námskeiðinu gerðu nemendur ýmsar ritæfingar, m.a. örsögur fyrir börn og fullorðna, örleiki, stutt leikrit, samtöl og ljóð. Allir dagar enduðu svo á samlestri þar sem nemendur lásu upp úr verkum sínum.“
Að sögn Önnu Margrétar áttu þátttakendur það flestir sameiginlegt að hafa skrifað frá unga aldri. „Þau voru öll óútgefnir höfundar en höfðu skrifað misjafnlega mikið. Sumir voru að endurvekja gamlan draum. Höfðu ekki gefið sér tíma eða fundið afsakanir til að skrifa ekki. Sumir vildu stíga út fyrir þægindarammann og prófa að gera eitthvað nýtt. Þannig að þetta var skemmtileg blanda fólks á aldrinum 36 ára til 70 ára.“
Lubbi Peace er einnig fullbúið upptökuver og hefur starfað sem slíkt í hartnær tuttugu ár. Ingi Þór er reyndur hljóðmaður, starfaði um árabil sem tæknimaður og útvarpsmaður á RÚV og einnig hjá Hljómahöll en hann hefur nú ráðið sig til starfa á tölvudeild Reykjanesbæjar.
Lubbi Peace
Að hans sögn var faðir hans, Ingibergur Þór Kristinsson, upphaflega með lítið æfingahúsnæði fyrir hljómsveit sína í skúrnum en þau hjónin búa nú á æskuheimili Inga Þórs.
„Þegar ég fór að mannast og var sjálfur kominn í tónlist fékk ég áhuga á hljóðvinnslu. Í kjölfarið fórum við pabbi að sanka að okkur græjum og við breyttum þessu smám saman í upptökuver, það var þá sem nafnið kom.“
Nafnið Lubbi Peace vísar til hippatímans og friðsamlegra mótmæla Yoko Ono og John Lennon þar sem þau lágu í rúminu og mótmæltu stríði. „Á veggnum var plakat sem á stóð Hair Peace. Þá voru lubbar mikið í tísku og við feðgarnir með góðan lubba, gott ef ég var ekki kallaður Ingi lubbi. Þannig varð nafnið til og við ákváðum að halda því áfram þótt við séum að útvíkka starfsemina.“
Anna Margrét tekur undir þetta.
„Lubbi Peace er rými til að skapa. Þar er hægt að koma og taka upp tónlist eða lesið efni svo sem eins og hljóðvörp sem eru að springa út núna. Þá er hægt að leigja aðstöðu til að halda fundi eða námskeið fyrir smærri hópa. Eða koma hingað og hitta annað skapandi fólk og nýta sér vinnurýmið,“ segir Anna Margrét en nemendur á námskeiðinu lásu upp úr verkefnum sínum í hljóðverinu og tekin voru viðtöl við þá sem hægt verður að hlýða á í hlaðvarpi Lubba Peace.
Námskeiðið var að sögn Önnu Margrétar vonandi það fyrsta af mörgum en þau hjónin vinna nú að því að setja niður dagskrá vetrarins.
„Sigga Dögg kynfræðingur er t.d. búin að bóka sig í tíma í hlaðvarpsframleiðslu og þess má geta að hér hafa verið teknar upp tvær hljóðbækur sem komu út fyrir jólin eftir höfunda á Suðurnesjum. Þá verðum við hjónin með hlaðvarp um sambönd sem er að detta í loftið svo verkefnin eru ýmisleg.“
Skapandi rými
Anna Margrét hefur BA próf í nútímafræði og hefur lokið diplómanámi í kennsluréttindum og vefmiðlun frá HÍ en þar hefur hún stundað nám við hagnýta menningarmiðlun. Þess fyrir utan er hún jógakennari og segir hún að jógað muni vafalaust eiga hlutverk í Lubba Peace.
Mikil vinna hefur farið í framkvæmdir og koma húsnæðinu í stand sem hefur tekið sinn tíma auk þess að sinna þremur börnum og einum hundi. Nú sér fyrir endann á því og eru þau hjónin bjartsýn á framhaldið.
„Það má gjarnan koma fram að þeir sem vilja vinna í skapandi rými geta hafa samband við okkur í gegnum netfangið [email protected], eins ef fólk hefur hugmyndir að námskeiðum fyrir litla hópa þá ekki hika við að hafa samband. Já og endilega fylgist með okkur á hlaðvarpinu og samfélagsmiðlum,“ segja Anna Margrét og Ingi Þór að lokum.
Dagný Maggýjar.