Skapandi kraftur alls staðar!
Sagt er að þegar þrengir að okkur mannfólkinu og við þurfum að fara að hugsa upp á nýtt eða leita nýrra leiða þá blómstri menningarlífið sem aldrei fyrr. Þegar gamla leiðin dugir ekki lengur og þú þarft að fara að hafa fyrir hlutunum þá opnast nýjar víddir innra með þér.
Þetta á alla vega við um fullorðna fólkið en það er spurning hvort það eigi við um krakkana líka? Eru þau að upplifa meiri þörf fyrir sköpun núna eða er fullorðna fólkið að gefa sér meiri tíma til að sinna þeim og sköpunarhæfileikum þeirra?
Fjársjóður framtíðar er falinn í börnum okkar, það er engin klisja, þetta er dagsatt og við sem eldri erum þurfum að sinna ungu kynslóðinni betur, bæði andlega og félagslega. Ekki dugir að setja þau fyrir framan sjónvarp eða tölvu ef við viljum ala upp lifandi einstaklinga, allt er nefnilega gott í hófi. Ástralskir vísindamenn hafa rannsakað og komist að því að sjónvarpsgláp barna getur beinlínis skaðað þau, gert þau að óvirkum neytendum, þau verði framtakslaus og kraftlítil. Þetta vita margir sem vilja stuðla að öflugu menningarlífi barna og unglinga.
Kröftug leiklistarkona
Ein af þessum fullorðnu einstaklingum sem hefur áhuga á að virkja kraft barna og unglinga til góðs er Guðný Kristjánsdóttir, öflug áhugaleikkona úr Leikfélagi Keflavíkur. Guðný sá að það vantaði tækifæri til að efla sköpunarkraft krakka og ákvað því að bjóða upp á leiklistarnámskeið fyrir börn og unglinga í skapandi smiðju sem nefnist Gargandi snilld en nafnið segir allt sem segja þarf um innihald námskeiðanna. Guðný hjálpar þátttakendum að finna snillinginn innra með sér, þennan sem langar að fá útrás fyrir hæfileika sína en það gerir Guðný með þeim í gegnum söng og leiklist. Krakkarnir sem koma í Gargandi snilld eru frá aldrinum átta ára til unglingsaldurs. Þau mæta einu sinni í viku og enda svo nokkurra vikna námskeið með því að halda foreldrasýningu en þá fá gestir að sjá barnið sitt í sínu flottasta formi uppi á leiksviði. Sjálfstraust og öryggi í framkomu er eitt af því sem leiklistin eflir í þátttakendum, á sama hvaða aldri þeir eru.
Leiklist inn í alla grunnskóla!
„Mér fannst vanta svona skapandi námskeið fyrir börn hér á svæðinu og sérstaklega þar sem ég á sjálf þrjú skapandi börn sem höfðu alist upp í leikhúsinu hér, þegar ég var að taka þátt í uppsetningum LK. Mér fannst þetta einnig vanta inn í skólann en Aðalnámskrá grunnskóla segir að grunnskólar eigi að bjóða upp á leiklist og tjáningu markvisst í skólum en það skortir verulega á í mörgum skólum. Ég er svo heppin að vinna við leiklistarkennslu í skólanum mínum, Heiðarskóla í Keflavík en þar er rík áhersla lögð á listir og skapandi starf. Málið er að byrja með nemendur nógu unga í leiklist því þá verður hún öflugt verkfæri til að byggja upp jákvæða sjálfsmynd nemenda. Það er vel hægt með unglingum en erfiðara að ná þeim og því segi ég því yngri því betri árangur. Þetta eru forvarnir af sterkustu gerð, við erum að vinna með einstaklinginn í leiklist og leyfa honum að finna styrkleika sína í hreyfingu og leik en ekki bara í bók. Þeir sem geta ekki lesið eða vilja ekki vera í íþróttum, hvar eiga þeir að fá útrás fyrir allan kraftinn sinn?“, segir Guðný eldheit fyrir málefninu. Hún hefur þann draum heitastan að allir grunnskólar bjóði öllum nemendum sínum upp á leiklist vikulega til að byrja með og þegar skólarnir sjá árangurinn má fjölga kennslustundum markvisst í leiklist, þetta skili sér í hátterni nemenda.
„Börn eru svo opin þegar þau eru ung og það er svo auðvelt að móta þau á fallegan hátt. Í Gargandi snilld er ég að koma til móts við þá krakka sem langar og hafa þörf til að skapa í gegnum leiklist, þetta var ekki í boði en er það núna. Hingað koma krakkar af nær öllum Suðurnesjum. Það er svo gaman að sjá hvernig þau opnast þegar farið er að vinna með þau. Leiklist opnar krakka og breytir þeim, sem áður voru lokaðir eins og skel, yfir í skínandi gleðisól. Við vinnum einnig með takt og söng en krakkarnir fá að fara í söngupptöku í Geimstein studíó og fá svo með sér hljómdiskinn heim í lokin. Aðstaðan hér í Frumleikhúsinu er líka frábær, leiksvið, leikbúningar og hvað eina sem þarf.“
Meira úrval á nýju ári
„Námskeiðin hafa fengið svo frábærar móttökur að það hvetur mig til dáða og ætlunin er að færa út kvíarnar eftir áramót og bjóða upp á hljóðfæranámskeið í samvinnu við eiginmanninn“, segir Guðný kampakát. En eiginmaðurinn er Júlíus Guðmundsson, tónlistarmaður með meiru, sonur Rúna Júll. Þau hjónin hafa bæði verið viðloðandi leiklist og tónlist í gegnum allan sinn búskap og ber heimili þeirra glöggt vitni um það því þar eru hljóðfæri af alls konar gerð út um allt hús. Eftir áramót verða trommunámskeið og rafmagnsgítarnámskeið í boði hjá Gargandi snilld, sem Júlli leiðbeinir með. Þannig að gróskan og viljinn er mikill til að halda áfram á sömu braut, gefa krökkum tækifæri til listsköpunar í gegnum leiklist og tónlist.
Fleiri að kenna leiklist!
Við Guðný erum sammála um það að allir skólar þurfi að kappkosta að bjóða upp á leiklistarkennslu en fyrst þarf að bjóða kennurum sjálfum upp á námskeið. Kennarar þurfa nefnilega að þjálfast og öðlast öryggi í að nota verkfæri leiklistar, eignast pott hugmynda og prófa þær á sjálfum sér fyrst á námskeiði til að nota þær svo inni í skólastofunni. Leiklistarnámskeið nýtist öllum kennurum, einnig í framhaldsskóla því það má alltaf grípa í leiklist til að brjóta upp kennsluna, hrista hópinn saman eða víkka út kennsluna með verkfærum leiklistar. Leiklist er frábær til að nota sem hópefli á nemendahóp því það virkjar þátttakendur á svo jákvæðan hátt. Leiklist eru forvarnir, við erum að vinna með sjálfstraust nemenda og efla jákvæða sjálfsmynd. Félagslegur þroski kemur með ástundun leiklistar, hæfni til samvinnu og öryggi í framkomu. Einstaklingar með sterka sjálfsmynd leita síður í vímuefni til að þora, þeir hafa hugrekki til að standa með sjálfum sér og þurfa enga hækju til þess.
Mér finnst svo gaman að leika!
Þegar fylgst var með hópnum sem staddur var hjá Guðnýju í þetta sinn í Frumleikhúsinu, þá var gráupplagt að heyra í einum þátttakanda og vita hvað honum fyndist um námskeiðið.
Sigurður Skagfjörð Þórhallsson er átta ára gamall og var að koma í fyrsta sinn á leiklistarnámskeið í Gargandi snilld. Hvers vegna? „Út af því að mig langar að vera frægur leikari á Íslandi, ég er búinn að ákveða það fyrir löngu,“ sagði Sigurður ákveðið. Hann segist alltaf hafa verið að leika þegar hann var minni og honum finnst gaman að syngja líka en það fær hann einnig tækifæri til á námskeiðinu. Sigurður segist vera rosalega spenntur fyrir foreldrasýningunni og hlakkar til að sýna gestunum leikrit og fleiri atriði á leiksviðinu, með alvöru ljósum og á alvöru sviði. Honum finnst líka gaman í skóla, að læra og svona. „Ég er líka í Taikwondo en þar læri ég einbeitingu, vörn og spörk, að vera sterkur og það er voða gaman“, segir hann kankvís.
Sigurður er ósköp ljúfur þegar talað er við hann, virkar örlítið feiminn en svo þegar hann segir frá eða leikur þá ljómar hann. Hver veit nema við fáum að fylgjast með frægðarsól hans í framtíðinni, við skulum alla vega leggja nafnið á minnið; Sigurður Skagfjörð Þórhallsson.