Skálmöld með tónleika í Kvikunni
Skálmöld er risin! Vinsælasta þungarokkshljómsveit Íslands, Skálmöld, verður með tónleika í Kvikunni laugardaginn 16.mars kl. 20:30. Óhætt er að segja að þetta sé stórviðburður í grindvísku tónlistarlífi. Tónleikarnir eru hluti af Menningarviku Grindavíkur sem hefst á laugardag.
Skálmöld var stofnuð í ágúst 2009 af sex mönnum sem þekktust mismikið en áttu það sameiginlegt að hafa verið að einhverju leyti sýnilegir í íslensku tónlistarlífi, fæstir þó í harðari tegund tónlistar. Rætur meðlimanna flestra liggja þó í þungarokkinu og því var strax ljóst hvert stefndi. Fyrsta plata Skálmaldar, „Baldur", kom út síðla árs 2010 og náði strax undraverðum vinsældum, bæði í rokkgeiranum en líka hjá fólki sem ólíklegra er til að hlusta á þessa tegund tónlistar. Í framhaldi af velgengni á heimaslóðum var platan gefin út á heimsvísu af austurríska útgáfurisanum Napalm Records og síðan þá hefur Skálmöld spilað á fjölmörgum tónleikum, bæði heima og utan, og vinsældir vaxið jafnt og þétt. Önnur plata sveitarinnar, sem hlaut nafnið „Börn Loka", kom út í lok síðasta árs og hefur fengið frábæra dóma.
Tónlist Skálmaldar hefur verið kennd við víkinga og er það engin furða. Textar sveitarinnar, sem allir fylgja fornum íslenskum bragarháttum, eru í víkingastíl, yrkisefnið bardagar og goðafræði, og
andrúmsloftið rammíslenskt. Tónlistin sjálf er þungarokk af gamla skólanum, kryddað með áhrifum frá þjóðlagaarfinum í bland við nýrri strauma. Útkoman er aðgengilegt og tilfinningaþrungið rokk sem lætur engan ósnortinn.
Tónleikar Skálmaldar eru kafli út af fyrir sig. Þar nýtur sveitin sín best og hrífur áhorfendur með sér með frumkrafti og spilagleði. Þessi upplifun verður þó alls ekki fullútskýrð með orðum og því er sjón sögu ríkari.
Verð: 3.000 kr. í forsölu sem hefst laugardaginn 9. mars. 4.000 kr. við innganginn.