Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skáldagáfa rennur í æðum Skúla
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
miðvikudaginn 18. desember 2019 kl. 15:58

Skáldagáfa rennur í æðum Skúla

Jón Thoroddsen stóð á þrítugu þegar hann hóf að skrifa skáldsöguna Pilt og stúlku sem markar upphaf nútíma skáldsagnagerðar Íslendinga. Skáldsagan, sem kom fyrst út í Kaupmannahöfn vorið 1850, er gamansöm örlagasaga Sigríðar Bjarnadóttur og Indriða Jónssonar sem eftir misskilning á misskilning ofan fá loks að eigast. Í þeirri skáldsögu heyrum við líklega fyrst talað um Gróu á Leiti. Jón Thoroddsen, fyrsta skáldsagnaskáld Íslendinga, var einnig lipurt ljóðskáld.

Skúli Thoroddsen, sem nýlega gaf út skáldsögu sem ber heitið Ína, á ekki langt að sækja skáldagáfur sínar því Jón Thoroddsen þjóðskáld var langafi hans. Theodóra Thoroddsen skáld, einkum þekkt fyrir þulur sínar og sem samdi Tunglið, tunglið taktu mig, var amma Skúla. Þetta liggur því í genunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Skúli Thoroddsen, sem er lögfræðimenntaður og einnig lýðheilsufræðingur að mennt, býr í Keflavík ásamt eiginkonu sinni, Jórunni Tómasdóttur, kennara við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Víkurfréttir mæltu sér mót við Skúla eitt síðdegið í desember til að ræða um bókina nýju.

Er þetta fyrsta bókin þín Skúli?

„Árið 2002 hélt ég málverkasýningu á Ljósanótt og gaf út ljóðabók í leiðinni, Í ljósi tímans nefndist hún, bók sem ég gaf út sjálfur í nokkrum eintökum. Ína er fyrsta skáldsagan mín en ég hef verið að dútla við hana undanfarin sex ár, rannsaka og ferðast vegna heimildaöflunar, með öðru. Ég fór svo á eftirlaun í haust og ákvað að ljúka við bókina. Það er mikil gagnaöflun á bak við söguna um Inu von Grumbkow. Ína fjallar um atburði sem áttu sér stað í Öskju árið 1907 þegar tveir Þjóðverjar, Walter von Knebel, jarðfræðingur, og Max Rudloff, listmálari, hurfu þar sporlaust. Ína, unnusta Walters, ferðast til Íslands ári síðar til að leita skýringa á því sem gerðist,“ segir Skúli.

Vofveiflegir atburðir

Bókaútgáfan Sæmundur gefur út bókina um hina listhneigðu og prússnesku Ínu en leið hennar liggur víða um óbyggðir Íslands og kynni hennar af náttúru landsins reynast afdrifarík. Ína er marglaga saga þar sem teflt er saman hræringum í evrópskum lista- og fræðaheimi, umbrotum í mikilfenglegri náttúru á hálendi Íslands og heitum tilfinningum.

„Það var algjör tilviljun árið 2005 þegar ég var staddur í Öskju og rakst á vörðu með tveimur nöfnum og ártalið 1907. „Hvað er þetta?,“ spurði ég sjálfan mig. Hvaða nöfn eru þetta? Í fornbókabúðinni Fróða á Akureyri rakst ég svo á gamla bók sem var ferðalýsing Inu von Grumbkow, unnustu von Knebel, til Íslands en þar skrifar hún um þennan leiðangur sinn í leit að unnusta sínum við Öskju. Bókin hennar, Ísafold, og allt hið ósagða úr þessari ferð hennar til Íslands vakti áhuga minn á að skoða þessa atburði nánar. Af hverju fóru þessir tveir menn til Íslands? Hvað kom fyrir þá, hvers vegna hurfu þeir sporlaust? Eldgosið í Öskju árið 1875 var eitt af rannsóknarefnum þessara manna en með þeim í för inn að Öskju hafði slæðst ungur ferðalangur. Í þýsku pressunni var fullyrt á sínum tíma að sá hinn sami ferðalangur hefði myrt mennina tvo. Hvernig datt þessari konu í hug að koma hingað og leita að unnusta sínum? Hver var bakgrunnur hennar? Til er ferðalýsing, um þá ferð í íslenskri þýðingu, sem var meðal annars kveikjan að skáldsögu minni. Leið Ínu liggur víða um Ísland og óbyggðir landsins og kynni hennar af náttúru þess reynast afdrifarík. Þá fer ég að grúska og leita,“ segir Skúli og það er ekki laust við að blaðakona verði einnig spennt að vita um afdrif þessara tveggja manna.

Skáldaði í eyðurnar

„Ég gaf mér leyfi til að endursegja þessa sögu með þeim persónum sem ég fann í þessu grúski mínu. Sagan er byggð á þeirri staðreynd að Ina og Reck, sem fór í ferðina með henni til Íslands, giftast seinna en að þessu komst ég eftir að hafa rannsakað líf hennar. Hún var ljósmyndari og tók ljósmyndir á ferð sinni um náttúru Íslands árið 1908. Þessar ljósmyndir hennar er hægt að finna á netinu. Bókin hefst á því að Ina liggur á dánarbeði og fer að minnast þessara tveggja ástmanna sinna. Merkilegast við þessa konu á þessum tíma er kjarkur hennar og vilji til að takast á við sorgina. Ferðin var mjög erfið á hestbaki yfir straumharðar ár, fjöll og heiðar. Sjálfur hef ég verið útivistarmaður í þrjátíu ár og gengið mikið um landið okkar. Alla þessa staði í bókinni, sem hún og fleiri fara á hestbaki, hef ég komið á,“ segir Skúli.

„Það má segja að ég hafi verið heltekinn af þessari konu á meðan ég var að skrifa söguna, ég heillaðist líka af augljósri ást hennar á náttúru Íslands.“

Skynjaði nærveru Ínu

„Það veitti mér mikla ánægju að skrifa Ínu. Þetta er bók um landið sem ég þekki, um ljóð sem ég kunni og list sem ég unni. Það má segja að ég hafi verið heltekinn af þessari konu á meðan ég var að skrifa söguna, ég heillaðist líka af augljósri ást hennar á náttúru Íslands. Hún var lærður listmálari sem lærði í Berlín þegar kvenréttindabarátta var í algleymi, þegar konur vildu fá að vera þær sjálfar. Þessi barátta var öll drepin niður í fyrri heimsstyrjöldinni en náði sér upp með ‘68 kynslóðinni. Bakgrunnur Ínu, samkennd hennar með manneskjum, allt þetta er ég að reyna að fanga í frásögn minni ásamt virðingu fyrir náttúrunni. Mér fannst ég skynja nærveru Ínu þegar ég var í Berlín. Mér fannst hún leiða mig á þá staði sem skiptu máli fyrir söguna. Ljósið og skugginn sem leika saman í málverkinu og tónlistinni, hið trúarlega stef, hvaða áhrif náttúran hefur á okkur. Ína sá málverkið í Íslandi, hún sleppir mannlegum tilfinningum finnst mér í bók sinni og því er ég að reyna að skálda í eyðurnar í bók minni. Bókin er óður minn til hugrökku konunnar og til íslenskrar náttúru. Ég hafði fetað sömu slóð og Ina von Grumbkow á Íslandi, farið á alla þessa staði sjálfur, að því leyti var Ína með mér allan tímann í skrifum mínum. Þessi ferð hennar hingað tengdist afabróður mínum, Þorvaldi Thoroddsen, náttúrufræðingi. Mesta ánægja mín núna er að sjá bókina á prenti, sögu sem ég er búin að vinna að í öll þessi ár. Allt þetta dútl mitt er komið á bók sem ég vona að gleðji lesendur,“ segir Skúli að lokum.