Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sjóstöng og hvalaskoðun með Særós frá Keflavíkurhöfn
Sunnudagur 13. júní 2021 kl. 07:39

Sjóstöng og hvalaskoðun með Særós frá Keflavíkurhöfn

Ferðaþjónustufyrirtækið Vogasjóferðir hefur flutt heimahöfn Særósar, sjóstangaveiði- og hvalaskoðunarskips, til Keflavíkurhafnar. Þaðan er siglt í Garðsjóinn eða á aðra staði í Faxaflóa þar sem rennt er fyrir fisk eða hvalir af ýmsum stærðum eru skoðaðir.

Eigendur fyrirtækisins eru hjónin Símon Georg Jóhannsson og Sigrún Dögg Sigurðardóttir. Fyrirtækið þeirra hóf útgerð í ferðaþjónustu frá höfninni í Vogum haustið 2018. Símon segir að ferðaþjónustan hafi gengið vel. Þau hafi keypt bátinn vorið 2018 og þá þegar farið í að breyta honum úr fiskiskipi yfir í ferðaþjónustuskip. Símon var búinn að vera með hugmyndina lengi í kollinum og ætlaði fyrst árið 2008 að fara í þessa tegund ferðaþjónustu en sem betur frestað þeim áformum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þau hafi leitað í nokkur ár að hentugu skipi og þegar Særós fannst hafi þau skellt sér í verkefnið. Símon segir að þau hafi hugsað þetta lengi og ekki hlaupið af stað í þetta. Þau unnu flestar breytingar á skipinu sjálf og nutu einnig aðstoðar vina og ættingja. Þá aðstoðaði Skipasmíðastöð Njarðvíkur við að glerja skipið en stórir gluggar eru á bátnum til að njóta einnig útsýnis neðan þilja.

Símon segir að útgerðin hafi hafist haustið 2018 og farið vel af stað. Árið 2019 var mjög gott og svo kom Covid-árið 2020 og það hafi gengið alveg ágætlega. Þau hafi tekið á móti ferðagjöfinni og margir nýtt tækifærið og farið á sjóstöng.

Alltaf var hugmyndin að gera Særós út frá Vogum en Símon segir að það hafi komið babb í bátinn hjá sveitarfélaginu og því hafi legið beinast við að flytja heimahöfnina til Keflavíkur. Hjá Reykjaneshöfn hafi verið tekið vel á móti Voga Sjóferðum og til að gera aðstöðuna sem besta hafi flotbryggja sem þjónaði Særós í Vogum verið keypt af Sveitarfélaginu Vogum og sett upp í Keflavíkurhöfn. Þar hefur einnig verið komið upp gámahúsi sem þjónustar ferðaþjónustufyrirtækið.

Í sölugámnum við höfnina er opið alla daga og þangað getur fólk komið ef það hefur ekki bókað ferð fyrirfram og keypt miða í daglegar ferðir sem eru farnar klukkan níu að morgni og aftur klukkan 13:30. Sjóstanga- og hvalaskoðunarferðir taka þrjár til fjórar klukkustundir en í sumar verður bætt við nýjum skoðunarferðum sem taka um eina og hálfa klukkustund þar sem siglt er með Hólmsberginu og einnig undir Stapanum. Þá geta hópar bókað ferðir á öðrum tímum. Særós er gerð út frá apríl og fram til áramóta en ekki er boðið upp á ferðir um hörðustu vetrarmánuðina. Með haustinu taka svo við norðurljósaferðir en það er einstök upplifun að sjá norðurljós af sjó. Þar er engin ljósmengun og engu líkt að anda að sér söltu sjávarloftinu og njóta norðurljósanna.