Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sjónvarp: Bráðfyndinn búningasmiður
„Mini Maggi Texas“: Magnús Máni hitti í mark í gervi nafna síns í Texasborgurum
Föstudagur 20. janúar 2017 kl. 15:00

Sjónvarp: Bráðfyndinn búningasmiður

Hinn tíu ára Magnús Máni slær öllum við á þrettándanum í Grindavík

Hann var eitthvað kunnuglegur kappinn sem tók á móti blaðamönnum Víkurfrétta í íbúðarhúsi í Grindavík í vikunni. Svo virtist sem sjálfur Maggi á Texasborgurum væri mættur á svæðið en þó aðeins smærri í sniðum. Þarna var hins vegar á ferðinni nafni þess á Texasborgunum, nefnilega hinn tíu ára gamli Magnús Máni Magnússon sem nýlega sigraði búningakeppni á þrettándanum í Grindavík í þriðja sinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Magnús leggur mikinn metnað í að fá ferskar hugmyndir og í framhaldinu útbýr hann búninga þar sem hvert einasta smáatriði er úthugsað. Hann féll fyrir Magga í Texasborgurum þegar kokknum glaðlynda brá fyrir í áramótaskaupinu. Hann vissi þó af honum og fannst til dæmis mjög fyndið viðtalið þar sem Texas Maggi fræðist um gúmmitré. Það var ekki mikið vandamál að smíða búninginn eftir að hugmyndin fæddist. Kokkabúningurinn og hatturinn voru til staðar en skeggið kemur af hesti sem Sindri yngri bróðir Magnúsar á. Keyptir voru hamborgarar og þeir skreyttir sérstaklega, þeir áttu jú að líta út fyrir að vera myglaðir að sögn Magnúsar. „Ég reyni að hafa eitthvað sem er frekar erfitt að gera og hefur verið að gerast á árinu og er fyndið,“ segir búningasmiðurinn ungi.

Magnús og Sindri, yngri bróðir hans, hafa verið sigursælir í keppni um flottasta búninginn síðustu ár í Grindavík. Svo sigursælir að grínast hefur verið með það í Grindavík að hafa sérstakan flokk bara fyrir þá tvo bræðurna. „Sem betur fer erum við í sitt hvorum flokknum,“ segir Magnús léttur í bragði. Fólk er jafnvel byrjað að velta því fyrir sér hvaða búning Magnús ætlar að setja saman löngu fyrir þrettándann en mikið er lagt upp úr deginum í Grindavík og löng hefð er fyrir því að klæða sig upp og ganga í hús og sníkja sælgæti í bænum. Þeir bræður Magnús og Sindri hafa klæðst ýmsu í gegnum tíðina. Þeir brugðu sér meðal annars í líki skítugu bræðranna  Magnúsar og Eyjólfs, sem Laddi og Karl Ágúst gerðu ódauðlega. Bræðurnir hafa líka klæðst sem raketta, hakk og spagettí eða dótakassi svo fátt eitt sé nefnt.

Erfitt að vera Almar í kassanum

Í fyrra var Magnús klæddur upp sem Almar í kassanum, sem hafði þá vakið mikla athygli í samfélaginu. Sá búningur var erfiður í smíðum en Magnús vann ötullega að því að gera kassann þannig að hann gæti nú flakkað milli húsa og safnað sælgæti. Til þess að allt væri nú sem raunverulegast þá var Magnús ber að ofan en eins og kunnugt er var Almar nakinn í glerkassa í vikutíma. Jóhanna, móðir Magnúsar, segir að drengurinn hafði viljað ganga aðeins lengra en hún hefði þó talið hann á það að vera í buxum á ferð sinni um bæinn í janúarkuldanum. Hann féllst á það en segir aðspurður að hann sé tilbúinn í að leggja mikið á sig til þess að búningurinn sé sem skemmtilegastur og flottastur. Búningurinn var þungur og súrefni af skornum skammti en vel þess virði þar sem hann vann í keppninni um besta búninginn. Magnús segist vera mikill keppnismaður þegar kemur að búningunum og leggur mikið á sig til þess að sigra.

Magnús hefur gaman af því að fá fólk til að hlæja og þegar hann mætti í hús sem Texas Maggi núna í ár þá safnaðist heimilisfólkið oft saman og hló að frumlegum búning hans. „Ég væri alveg til að vera leikari eða eftirherma í framtíðinni,“ segir Grindvíkingurinn hressi að lokum.