Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sjónarsviptir af sögufrægu bakaríi
Sunnudagur 3. ágúst 2014 kl. 10:00

Sjónarsviptir af sögufrægu bakaríi

- Valgeirsbakarí er til sölu eftir 44 ára starfsemi

Valgeir Jóhannes Þorláksson, betur þekktur sem Valli bakari, hefur staðið vaktina í Valgeirsbakaríi við Hólagötu í Njarðvík frá árinu 1970. Það hefur hann gert með dyggum stuðningi fjölskyldunnar en flestir meðlimir hennar hafa á einhverjum tímapunkti starfað í bakaríinu, sem fyrir löngu er orðið hluti af samfélaginu í Njarðvík. Fyrir fjórum árum tók Ásmundur sonur Valgeirs við rekstri bakarísins en sá gamli hélt áfram að vinna hjá syninum. Nú er fyrirtækið komið á sölu en þeir feðgar vonast til þess að gott fólk sem hafi áhuga á rekstri sem þessum komi að Valgeirsbakaríi þegar fram líða stundir.

Valgeir var 16 ára þegar hann fór að fást við bakstur en ástæðuna segir hann hafa verið þá að hann var hæstur í bekknum sínum í matreiðslu. Þá bjó hann á Húsavík en þar sleit hann barnsskónum. Hann fluttist til Njarðvíkur 25 ára gamall og kom Valgeirsbakaríi á koppinn. Það hefur svo haldið velli síðustu 44 árin á sömu kennitölu, sem er ekki svo algengt í nútímarekstri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Nú fer ég að slaka á, en ég hef alltaf notið lífsins í þessari atvinnugrein. Ég hugsa að það verði ekki erfitt að hætta en ég hef þó samt ennþá gaman af þessu,“ segir Valgeir þegar blaðamaður fiskar eftir því hvað taki við þegar starfsferlinum lýkur. Magdalena Olsen kona hans hefur staðið Valgeiri við hlið í bakaríinu frá upphafi en hann segir að án hennar hefði þetta aldrei gengið eins vel. „Lena kona mín hefur staðið mér við hlið alla tíð. Ef hún hefði ekki verið hérna þá væri bakaríið ekki eins og það er, hún er svo skipulögð og vandvirk. Gott gengi fyrirtækisins er held ég bara vegna góðs samstarfs okkar Lenu fyrst og fremst. Þetta er algjört fjölskyldufyrirtæki en barnabörnin hafa flest unnið hér í afgreiðslunni.“

Senda snúða og normalbrauð erlendis

Reksturinn hefur alltaf gengið nokkuð vel að sögn Valla. „Við erum búin að skapa okkur nafn og verið með okkar verð í lægri kantinum. Við vöndum okkur og erum því með fastan og góðan kúnnahóp. Einnig fáum við oft utanbæjarfólk sem kemur og langar að prófa og fólk sem hefur flutt úr bænum hefur meira að segja látið ættingja sína senda út til sín bakkelsi eins og t.d. normalbrauð og snúða. Þetta tvennt er með því vinsælla hjá okkur sem og vínarbrauðið,“ segir bakarinn en í uppáhaldi hjá honum sjálfum eru sælustykki og hafrasnúðar.

Það er augljóst að Valgeiri er umhugað um ferskleika og hefur hann aldrei hugsað sér annað en að bjóða upp á vörur sem gerðar eru frá grunni á staðnum. „Við höfum aldrei keypt inn neitt frosið, við bökum allt sjálf alveg frá grunni. Menn hafa reynt að selja mér frosna vöru og það var meira að segja einn sem gaf mér heilan kassa sem ég sendi til baka. Ég vil ekki sjá þetta,“ segir hann ákveðinn.

Þróunin í bransanum hefur verið niður á við að mati Valgeirs. „Það eru flutt inn brauð og kökur í gámum og svo hefur maður heyrt að menn séu að læra iðnina en nenna svo ekki að vinna við þetta. Það er því erfitt að fá bakara til starfa. Ég veit t.d. um marga bakara sem eru orðnir sölumenn hjá heildsölu.“

Valgeir hefur ýmsa fjöruna sopið í bransanum en hann hefur engar áhyggjur af því að sér fari að leiðast. „Þegar ég var að byrja og þegar ég rak þetta sjálfur var maður að vinna 10-12 tíma á dag og vaknaði alltaf mjög snemma eins og bakarar þurfa að gera. Ég hef hins vegar engar áhyggjur að mér fari að leiðast þegar ég hætti að vinna. Ég er í karlakórnum, hef gaman að því að veiða og svo fékk ég golfsett þegar ég varð þrítugur sem hefur lítið verið notað. Ég er 69 ára og í fínu standi og það er aldrei að vita nema ég dusti rykið af golfsettinu,“ segir Valgeir hress í bragði. Hann mun hugsanlega draga sig í hlé þegar nýr aðili hefur tekið við rekstrinum.

Vona að áfram verði bakarí í húsinu

Ásmundur Örn sonur þeirra hjóna keypti bakaríið fyrir nokkrum árum en hann hefur starfað þar síðan hann var 17 ára. „Núna vill hann selja eða fá einhvern með sér í þetta. Það hafa margir komið að máli við okkur og látið áhyggjur sínar í ljós að hér muni eiga sér stað miklar breytingar. En það verður bara að taka því ef svo verður. En ég vona auðvitað að það verði áfram bakarí hér. Staðsetningin er mjög góð í Njarðvíkunum, fyrirtæki hafa alltaf gengið vel í þessu húsi. Við Lena viljum endilega nýta þetta tækifæri og þakka öllum kúnnum fyrir allt gamalt og gott í gegnum tíðina.“ Það er ljóst að rétt eins og með Fíabúð áður, þá verður erfitt að venjast nýju nafni á þann rekstur sem tekur við af Valgeirsbakaríi.

Fjölskyldufyrirtæki: Feðgarnir Ásmundur og Valgeir hafa starfað saman í nokkra áratugi, það var augljóst á vinnubrögðum þeirra eins og blaðamaður varð vitni að.

Valli er alltaf duglegur að afgreiða viðskiptavini sem margir hverjir hafa nánast alist upp hjá honum í bakaríinu.