Sjómenn úr Grunnskóla Grindavíkur
Hraustir drengir úr 7. bekk Grunnskóla Grindavíkur fóru í gærmorgun út á sjó með kennara sínum. Það var áhöfnin á Árna í Teigi sem bauð þeim að koma með í túr og tók hún vel á móti þeim. Drengirnir fengu að taka þátt í allri vinnu sem fram fer um borð. Þessir ungu herramenn voru mættir niður á bryggju klukkan sjö tilbúnir í slaginn. Þeir ætla sér allir að verða sjómenn í framtíðinni.
Í upphafi ferðar var farið með bæn aftur á dekki. Drengirnir leiddust í hring og skipstjórinn kyrjaði bæn um fiska og fugla. Þetta var að sjálfsögðu hrekkur og var mikið hlegið eftir bænastundina. Drengirnir voru hörku duglegir, ældu í sjóinn, þurrkuðu sér síðan bara um munninn og héldu áfram að vinna! Það var stoltur kennari sem kom í land með þessa dugnaðaforka. Þessi vel heppnaða sjóferð sýnir sannarlega hvað verknám er mikilvægur partur af skólastarfi í Grindavík. Þarna kynntust drengirnir aðal atvinnugrein Íslendinga og draumastarfinu.
Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar og þar eru fleiri myndir úr sjóferðinni.