Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Sjóarinn síkáti verður í Reykjavík um helgina
Föstudagur 31. maí 2024 kl. 06:13

Sjóarinn síkáti verður í Reykjavík um helgina

Reykvíkingar bjóða Grindvíkinga velkomna um borð

„Undanfarin ár hefur Sjóarinn síkáti í Grindavík verið í samkeppni við sjómannadaginn í Reykjavík. Nú snúum við bökum saman og tökum það besta frá hvorum aðila,“ segir Eggert Sólberg Jónsson, sviðstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar. Hátíðarhöld Grindvíkinga verða eðlilega með breyttu sniði og mun hátíðin sameinast hátíðarhöldum Reykvíkinga á laugardagskvöldinu og sjálfum sjómannadeginum á sunnudeginum.

Eggert er að skipuleggja sína sjöttu sjóarahátíð en hann tók við stjórnartaumunum árið 2019.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég er nú ýmsu vanur, ég þurfti að að glíma við COVID svo þetta er ekki alveg nýtt fyrir mér. Auðvitað eru þetta samt mjög breyttar forsendur í ár þar sem við getum lítið gert í Grindavík vegna aðstæðna þar. Þó verður lagður blómsveigur við minnisvarðann um drukknaða sjómenn á laugardaginn kl. 11.

Þakklát Reykvíkingum

Við erum afskaplega þakklát aðstandendum hátíðarinnar í Reykjavík fyrir að hafa gripið okkur snemma árs. Svona hátíðarhöld eru ekki hrist fram úr erminni og þurfa langan undirbúningstíma. Samstarfið hefur gengið vel og við höfum haft tækifæri til að setja okkar mark á hátíðina.

Þau buðu okkur t.d. að nota stóra sviðið þeirra á laugardagskvöldinu. Það verður því bryggjuball úti á Granda þar sem tónlistarfólk úr Grindavík mun koma fram ásamt hljómsveitinni DJÚKBOXIÐ. Þeir munu njóta fulltingis goðsagnarinnar Magnúsar Kjartanssonar sem mun bæði leika á píanó og hljómborð auk þess að syngja sínar þekktustu dægurlagaperlur. Eftirherman og söngvarinn Karl Örvarsson mun taka nokkur lög og tekur suma af sínum bestu vinum með.

Síðast en ekki síst munu Jón Arnór og Baldur auk hins eina sanna Prettiboitjokkó stíga á stokk. Ég veit að Grindvíkingar munu fjölmenna og vonast auðvitað til að sjá sem flesta vini okkar úr Reykjavík og annars staðar frá líka, þetta verður mikið fjör.“

Flekahlaup og kararóður

Segja má að þetta sé athyglisverður samruni í ár því þessar hátíðar hafa í raun verið í nettri samkeppni undanfarin ár og þá sérstaklega á sjálfum sjómannadeginum á sunnudeginum.

„Reykvíkingarnir hafa verið með koddaslag sem hluta af sinni dagskrá og ætla að bæta við hinu vinsæla flekahlaupi og kararóðri sem við Grindvíkingar höfum verið með sem fastan punkt hjá okkur. Ég ætla rétt að vona að Grindvíkingarnir fjölmenni í þessar greinar, við þurfum að sýna borgarbúunum hvernig þetta er gert. Það verður líka hægt að keppa í klifri en útisvæði Reykvíkinganna úti á Granda er síst síðra en okkar hátíðarsvæði fyrir neðan Kvikuna. Það verður margt til sýnis, fjölmörg fyrirtæki munu kynna sig og sína starfsemi og hægt verður að kaupa alls kyns veitingar,“ segir Eggert.

Sjómannamessa í Vídalínskirkju og heiðranir

Sjómannadagsmessa Grindvíkinga í ár verður í Vídalínskirkju kl. 11 á sunnudaginn. Þar mun forseti Íslands flytja ávarp og Pétur H. Pálsson verður ræðumaður. Fannar Jónasson og Hrafnhildur Kristjánsdóttir koma til með að lesa ritningarlestra. Sjómenn verða síðan heiðraðir í Hörpu kl. 14.

Barnafjölskyldur sem ekki ætla í messu hafa tækifæri til þess að ganga úr Hörpu að hátíðarsvæðinu en skrúðganga þaðan hefst kl. 12:30. Á hátíðarsvæðinu koma m.a. fram Væb, Prettyboitjokkó, Herra hnetusmjör, Una Torfa ásamt barnakór Grindavíkurkirkju, Latibær, Gunni Helga, Árni og Sylvía o.fl. Þá verður boðið upp á andlitsmálningu, börn geta smíðað sinn eigin bát og hægt verður að leika í bryggjusprelli sem hefur verið mjög vinsælt í Reykjavík síðustu ár.

„Samningaviðræður okkar við veðurguðina hafa gengið vonum framar og sýnist mér allt stefna í blíðuveður eins og vera ber. Ég hlakka mikið til helgarinnar og hlakka til að hitta alla Grindvíkinga, og Reykvíkinga aðra gesti að sjálfsögðu líka,“ sagði Eggert

Dagskrá hátíðarinnar má sjá á sjomannadagurinn.is og grindavik.is