Sjóarinn síkáti söng og dansaði
Sjóarinn síkáti, hátíð sem Grindvíkingar hafa haldið til fjölda ára í tilefni af sjómannadeginum, var haldin um síðustu helgi og var mikið um dýrðir. Hátíðin hefst venjulega í sömu viku og voru haldnir tónleikar á Bryggjunni og Sjómannastofunni Vör. Sumum finnst Bryggjuballið á föstudeginum vera hápunkturinn en breyting var að þessu sinni en íbúar Grindvíkinga hafa alltaf skreytt hverfin sín í grænum, rauðum, bláum og appelsínugulum lit. Engir litir voru núna og Nettó bauð öllum í fiskisúpu við íþróttahúsið. Það var körfuknattleiksdeild UMFG sem sá um framkvæmdina, súpan var einstaklega góð en það var meistarakokkurinn Atli Kolbeinn Atlason sem sá um hana. Allir fóru svo á Bryggjuballið og var kátt á hjalla. Selfyssingarnir Magnús Kjartan (Stuðlabandið) og Ingó Veðurguð, skemmtu á Vörinni og Fishhouse og var troðið á báðum stöðum.
Á laugardaginn bar að margra mati hæst, streetball körfuboltamót og mátti sjá suma af bestu körfuknattleiksmönnum Íslands keppa, leikmenn eins og Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson og nýkrýndur Íslandsmeistari með Tindastóli, Sigtryggur Arnar Björnsson. Þvílík tilþrif sáust og sigurvegararnir voru Jón Axel og félagar.
Á laugardagskvöldið hélt svo körfuknattleiksdeild UMFG sitt árlega ball og tókst frábærlega til, mjög margt og mikið stuð. Eldri kynslóðin kvartaði yfir að ekkert væri fyrir þau og mættu veitingastaðir bæjarins taka það til íhugunar fyrir næstu sjómannahelgi. Flott framtak hjá Grindavíkurbæ að bjóða öllum að taka þátt í skoðanakönnun um hvað var vel heppnað og hvað mætti betur fara að ári.
Sunnudagurinn sem er sjálfur sjómannadagurinn, fór síðan vel fram með hefðbundnu sniði en líklega ber hæst, hátíðarmessan í Grindavíkurkirkju og allir labba svo að Von sem er stytta til heiðurs föllnum sjómönnum. Sjómannafélagið býður síðan alltaf til hátíðarkvöldverðar á Sjómannastofunni Vör og tókst vel til eins og ávallt.
Grindvíkingar og aðrir gestir, lögðust eflaust þreyttir á koddann á sunnudagskvöldi en myndirnar sem hér fylgja, segja í raun meiri sögu en þessi pistill.
Myndir/Ingibergur Þór Jónasson