Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sjálfsagt að hlaupa til ef það vantar þjónustu utan opnunartíma
Fimmtudagur 19. janúar 2023 kl. 19:30

Sjálfsagt að hlaupa til ef það vantar þjónustu utan opnunartíma

Sigríður Pálína Arnardóttir er Suðurnesjamaður ársins 2022

Grænt Reykjanesapótek fékk frábærar viðtökur, ekki síst fyrir mikla þjónustu. Fékk styrk til að vinna að tilraunaverkefni sem miðar að því að auka öryggi lyfjameðferðar og bæta meðferðarheldni sjúklinga.

„Ég á bara ekki til orð. Vá, hvað ég er glöð,“ sagði Sigríður Pálína Arnardóttir, lyfjafræðingur og eigandi Reykjanesapóteks, sem Víkurfréttir hafa valið Suðurnesjamann ársins 2022. Víkurfréttir hafa í rúma þrjá áratugi staðið fyrir vali á Suðurnesjamanni ársins. Fyrstur til að hljóta nafnbótina var útgerðarmaðurinn Dagbjartur Einarsson úr Grindavík en hann var Suðurnesjamaður ársins 1990. Sigríður Pálína, eða Sigga Palla, hefur rekið Reykjanesapótek frá árinu 2017 og getið sér gott orð á meðal Suðurnesjafólks fyrir einstaka þjónustulund. 

Lesendur Víkurfrétta, sem tóku þátt í valinu á Suðurnesjamanni ársins, voru á einu máli um það að Sigga Palla sé að veita mikla og góða þjónustu í apótekinu sínu. Apótekum Reykjanesapóteks fjölgaði reyndar um eitt á nýliðnu ári en útibú frá Hólagötunni hefur verið opnað á Fitjum. Sigga Palla stendur reyndar áfram vaktina á Hólagötunni og þar er hún í samstarfi við aðra lyfjafræðinga Reykjanesapóteks að veita neyðarþjónustu utan venjulegs opnunartíma – og venjulegur opnunartími á Hólagötunni er samræmdur að vakt heilsugæslulækna á HSS, þannig að þegar fólk kemur af læknavaktinni getur það sótt ávísuð lyf í apótekið hjá Siggu Pöllu. Hún hlaut líka styrk frá Heilbrigðisráðuneytinu á síðasta ári fyrir það sem kallað er „lyfjastoð“ – og þrátt fyrir langar vaktir í apótekinu hefur Sigga Palla tíma fyrir hestana sína sem hún sinnir tvisvar á dag, alla daga vikunnar.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvött til að fara í lyfjafræði

Sigga Palla er Njarðvíkingur, stundaði sitt grunnskólanám í Njarðvíkurskóla og fór þaðan í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. „Eftir fjölbraut var spurning hvert ætti að stefna og ég var hlynntari raungreinunum. Sveinbjörn Gissurarson, sem er einu ári eldri en ég, fór í lyfjafræði og hann spurði mig af hverju ég færi ekki bara í lyfjafræði. Hún væri alveg eins og efnafræði og líffræði. Það er eiginlega honum að þakka að ég fór í lyfjafræðinámið.“

Eftir nám starfaði Sigga Palla bæði í apóteki og á rannsóknarstofu. Hún bjó og starfaði einnig í Noregi í tæpan áratug. „Ég var formaður Lyfjafræðingafélags Íslands um tíma og það háði mér að kunna ekki að rífast á norðurlandamáli. Á þessum tíma vantaði svo lyfjafræðinga í Noregi, þannig að ég sló til árið 2004 og var með annan fótinn þar í níu ár. Kom heim á milli en hef þrisvar sinnum verið apótekari í Noregi og opnað nýtt apótek þar. Það er góður samanburður að hafa starfað í Noregi og einnig mikil endurmenntun.“

Er einhver munur á því að vera apótekari í Noregi eða á Íslandi?

„Regluverkið er alveg það sama og þjóðirnar eru líkar og alveg hægt að spegla sig í því. Það sem mér fannst skemmtilegast þegar ég kom heim árið 2017, en þá var ég að koma frá Drammen, að ég vildi opna apótek sem var líkt því sem ég var að gera í Noregi. Þannig erum við með okkar apótek, þar sem lyfjafræðingurinn er frammi og veitir góð ráð þannig að fólk noti lyfin rétt.“

Vildi nýta menntunina á Íslandi eftir Noregsdvöl

Áður en Sigga Palla opnaði Reykjanesapótek árið 2017 hafði hún unnið bæði hjá Lyf & heilsu og Lyfju. Þegar hún er spurð hvort það hafi alltaf verið draumurinn að opna eigið apótek, svarar hún því til að ef hún hefði verið hárgreiðslumeistari þá hefði hún opnað hárgreiðslustofu. Það lá því beinast við að nýta menntunina sem lyfjafræðingur og opna apótek. Það var samt ekki draumurinn um eigið apótek í Njarðvíkum sem dró Siggu Pöllu heim til Íslands. Það var íslenski hesturinn. Hún var og er með hesta sem hún sinnir alla daga. Dagurinn byrjar alltaf í hesthúsinu á Mánagrund þar sem hestunum er gefið og það má einnig segja að vinnudeginum ljúki í hesthúsinu, því hrossunum er gefið tvisvar á dag. Sigga Palla deilir hesthúsi með ungri hestakonu og er þar með tvö hross. Hún fer á hestbak nokkrum sinnum í viku og í hestaferð á sumrin. Hún segist alveg vilja geta varið meiri tíma með hestunum. „Þegar maður kynnist hestunum þá verða þetta svo miklir vinir manns. Það er ígildi þess að fara til góðs sálfræðings að fara í hesthúsið,“ segir Sigga Palla og brosir.


Apótekið náttúruvænt og grænt

„Ég var ekki með neinar sérstakar væntingar þegar ég opnaði Reykjanesapótek árið 2017. Ég hugsaði aðallega um að að búa til vinnu fyrir mig og þá sem yrðu að vinna með mér. Viðtökurnar hafa bara verið svo góðar. Við höfðum strax að leiðarljósi að hafa apótekið náttúruvænt og grænar áherslur. Björn, sonur minn, er prímusmótorinn í þessari grænu stefnu okkar. Við nýttum allt sem við gátum notað og allt sem við kaupum nýtt er með þessum grænu formerkjum. Það á einnig við um þær vörur sem við erum að selja, við reynum að hafa þær á þessum græna grunni.“

Lyfjastoð styrkt af heilbrigðisráðuneytinu

Reykjanesapótek er ekki hluti af stærri keðju en flest apótek landsins tilheyra keðjum apóteka. Sigga Palla segir að hún hafi svo sem ekki mikið verið að velta því fyrir sér að hella sér í samkeppni við keðjurnar. Það hafi verið lyfjafræðilega ráðgjöfin sem hafi ráðið för m.a. verið höfð að leiðarljósi þegar Reykjanesapótek opnaði. Eins og Víkurfréttir greindu frá síðasta sumar var Reykjanesapóteki veittur þriggja milljóna króna styrkur frá heilbrigðisráðuneytinu til að ráðast í tilraunaverkefni sem miðar að því að auka öryggi lyfjameðferðar og bæta meðferðarheldni sjúklinga.

Þjónusta sem þessi er þekkt erlendis undir heitinu „new medicine service“ en hefur fengið heitið „lyfjastoð“ á íslensku. Markmiðið er að draga úr rangri lyfjanotkun, tryggja öruggari innleiðingu meðferðar hjá sjúklingum, bæta lyfjaöryggi þeirra sem nota mörg lyf og auka öryggi lyfjanotkunar þegar um áhættusöm lyf er að ræða. Rannsóknir benda til að mest þörf á leiðsögn og upplýsingagjöf sé á fyrstu vikum lyfjameðferðar – á fyrstu dögunum til að stuðla að meðferðarheldni og um mánuði eftir að meðferð hófst til að veita sjúklingi upplýsingar ef fram hafa komið einhver vandamál tengd lyfjagjöfinni.

Tilraunaverkefni Reykjanesapótek miðast við að bjóða sjúklingum sem eru að hefja lyfjameðferð þátttöku í verkefninu. Viðkomandi er boðið viðtal við lyfjafræðing apóteksins einni til tveimur vikum eftir meðferð og svo annað viðtal þremur til fimm vikum síðar. Samstarf er við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) sem á þess kost að vísa sjúklingum á þessa þjónustu.

„Þetta hefur bara gengið vel, því móttökurnar hafa verið svo góðar og ég er mjög þakklát fyrir það.“


Ekkert nema sjálfsagt að hlaupa til

Þú fékkst sterk viðbrögð strax og þú opnaðir árið 2017. Þú hefur verið að veita mjög góða þjónustu og m.a. utan opnunartíma.

„Í gamla daga var þetta svona og í lyfjalögum segir að apótek eigi að vera aðgengileg allan sólarhringinn. Þetta var svona áður að maður gat alltaf hring í apótekarann ef það vantaði eitthvað. Ég var í sambandi við heilsugæsluna og reyndi að hafa opnunartímann í takti við vaktina þar og þannig a.m.k. dekka þjónustuna með opnunartíma apóteksins og að fólk þyrfti ekki að fara til Reykjavíkur til að sækja nauðsynleg lyf. Svo er ekkert nema sjálfsagt að hlaupa til ef það vantar þjónustu utan opnunartíma. Við erum líka að hugsa um flugvöllinn. Fólk er komið hingað suðureftir til að fara í flug en vantar nauðsynleg lyf eins og insúlínlyf eða flogaveikilyf. Þá skiptir ekki máli hvað klukkan er. Það er líka skemmtilegt að þetta hefur aldrei verið misnotað og ég er ekki kölluð til nema að það þurfi.“

Sigga Palla segir að þau reyni yfirleitt að fara tvö saman í þau útköll sem berast utan opnunartíma og samvinna lyfjafræðinganna hjá Reykjanesapóteki sé mjög góð og þau skipti með sér að mæta í þessar lyfjaafgreiðslur. „Starfsfólkið mitt er dásamlegt og þess vegna gengur þetta svona vel og við vinnum sem eitt lið.“

Lyfin geymd í peningahvelfingu Sparisjóðsins

Reykjanesapótek á Hólagötunni er í húsnæði sem á árum áður hýsti m.a. Njarðvíkurútibú Sparisjóðsins í Keflavík. Fyrst eftir að apótekið opnaði voru þeir lyfjaskápar sem notast er við í dag ekki komnir og þá var gripið til þess ráðs að geyma lyfin í peningahvelfingu Sparisjóðsins. Þar eru styrktir veggir og hurðin var stór og þykk. Reykjanesapótek hefur vaxið og dafnað síðan það var opnað fyrst árið 2017. Á síðasta ári bauðst Siggu Pöllu svo að opna apótek á Fitjum í Njarðvík en þar hafði því apóteki sem var fyrir verið lokað.

„Fyrst var ég alveg afhuga því að opna hér apótek. Ég er með hesta og langar að verja meira frítíma mínum þar og njóta. Apótekið mitt á Hólagötunni er líka bara svo gott – en þetta var freistandi og ég ræddi málið við samstarfsfólkið mitt, því við erum margir lyfjafræðingar og skemmtilegur hópur. Unga fólkið mitt var sko til í að opna. Magdalena Margrét Jóhannsdóttir var tilbúin að taka að sér að vera lyfsalinn og Björn S. Traustason framkvæmdastjórinn. Unga fólkið á stóran hlut í apótekinu á Fitjum. Ég lít meira á það sem verkefnið og þetta eru störf í heimabyggð. Þau stjórna apótekinu á Fitjum, ég er bara að læra af þeim, er með þeim í þessu og þetta er mjög skemmtilegt. Við höfum verið að fá mjög góðar móttökur einnig á Fitjum og ég er mjög ánægð með það. Við getum áfram unnið að hugðarefnum okkar sem er lyfjafræðileg ráðgjöf.“


Léttir á heilbrigðisstofnunum

Sigga Palla var í viðtali við Víkurfréttir á síðasta ári þar sem hún kynnti lyfjafræðilegu ráðgjöfina sem hún fékk styrk frá heilbrigðisráðuneytinu fyrir. Mikið hefur farið fyrir umræðu um vanda heilbrigðiskerfisins á síðustu misserum, vöntun er á starfsfólki og álag á heilbrigðisstarfsfólk, eins og lækna og hjúkrunarfólk, er gríðarlega mikið um land allt. Það álag er ekki síst hér á Suðurnesjum þar sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, fjársvelt stofnun, nær ekki að sinna öllum þeim íbúafjölda sem býr orðið hér með þeirri gríðarlega hröðu íbúafjölgun sem hefur átt sér stað. Sigga Palla bendir á að með því að færa lyfjaráðgjöf yfir í apótekin létti það upp að vissu marki álagi á læknum.

Tilraunaverkefnið lyfjastoð beinist í fyrstu atrennu einungis að blóðþrýstingslyfjum, blóðþynningar-/segavarnarlyfjum og blóðfitulækkandi lyfjum en Sigga Palla segir að þau myndu vilja veita ráðgjöf með öllum áhættulyfjum.

„Auðvitað hefði maður mestan áhuga á að taka þátt í að leiðbeina við inntöku á öllum áhættulyfjum, allri áhættumeðferð. Til dæmis hvernig sé hægt að trappa niður ávana- og fíknilyf. Það eru blóðþrýstingslækkandi, blóðfitulækkandi og blóðþynningarlyf sem þetta verkefni einskorðast við en auðvitað eru allir velkomnir í viðtöl hjá lyfjafræðingi í sambandi við alla lyfjagjöf. Það er hluti af okkar sérhæfða starfssviði en því miður veit almenningur ekki alltaf að þessi þjónusta er til staðar,“ segir hún.

Það er með ýmsum hætti sem fólk kemur í lyfjastoðina. Það getur pantað tíma þar sjálft en einnig eru læknar að vísa á þessa þjónustu, sem er ókeypis fyrir viðskiptavininn. Sigga Palla segir að í viðtölunum séu persónuverndarsjónarmið höfð að leiðarljósi. Verkefnið hjá Reykjanesapóteki, sem Heilbrigðisráðuneytið styrkir, stendur fram í mars. Þá er ætlunin að meta verkefnið og að í framhaldinu geti öll apótek boðið upp á þessa þjónustu. „Þá er gaman að segja frá því að meistaraverkefni í Háskóla Íslands er tengt þessu verkefni Reykjanesapóteks.“


Og hver hefur reynslan verið?

„Hún er mjög góð. Við höfum komist að mörgu krítísku þar sem hefur verið gott að grípa inn í. Eitt dæmi sem ég get sagt frá eru um einstakling sem var með of háan blóðþrýsting. Hann fór ítrekað til læknis og hafði leyst út lyfin sín. Hann kom til okkar og við fórum yfir lyfin með viðkomandi. Þar kom í ljós að af öllum lyfjunum sem hann var að taka, þá tók hann aldrei blóðþrýstingslyfið. Þar kom í ljós misskilningur sjúklingsins varðandi inntöku lyfjanna. Við erum alltaf í samstarfi við læknana og upplýsum þá, þannig að þeir geta gert breytingar á lyfjum eða aðlagað meðferðir sinna sjúklinga.“ Sigga Palla segir að það geti verið ágætt að setjast niður með lyfjafræðingi og rýna í lyfin. Það komi stundum annað sjónarhorn á lyfjameðferðina.

Covid skilaði kærleika

Hvernig var að vera apótekari í Covid-faraldrinum?

„Það var áhugavert. Í vísindum var þetta spennandi en á sama tíma ógnvænlegt. Við í Reykjanesapóteki tókum þátt í blöndun bóluefna með heilsugæslunni. Lyfjafræðingar og lyfjatæknar apóteksins blönduðu bóluefni og samstarfið við HSS var mjög gott. Apótekið var alltaf vel sótthreinsað og við vorum með vaktaskipti þar sem við pössuðum að hittast ekki á milli til að halda apótekinu opnu. Við þurftum reglulega að fara í sóttkví en við vorum mjög lánsöm og þurftum aldrei að loka apótekinu. Það önduðu svo allir léttar þegar bóluefnið kom í hús.“

Þegar Sigga Palla er beðin um að meta Covid-tímabilið, þá segir hún að það hafi skilað kærleika. Allir hafi staðið svo vel saman. Samstaðan var stórmerkileg og það var mikilvægt að þeir sem yrðu veikir myndu ná bata.


Apótekarar að gera stíla, pillur og mixtúrur

Sigga Palla segir miklar breytingar hafa orðið í apótekum frá því hún byrjaði strax eftir nám. Þá voru lyfjafræðingar að blanda lyf, búa til mixtúrur og krem. „Þegar ég vann í Reykjavíkurapóteki var verið að slá töflur þar og gera augndropa. Við vorum að gera stíla, pillur og mixtúrur eftir forskrift frá læknum. Ég sakna þess og væri alveg til í að bæta því inn í flóruna í dag – en núna er fókusinn á ráðgjöfina og lyfjafræðingar vilja vinna í apótekum til að veita góð ráð. Mig langar að sjá það almennt í apótekum að lyfjafræðingurinn sé frammi og sé sá sem fólk hittir fyrst.“

Framtíðardraumur að lyfjafræðingar geti endurnýjað lyfseðla

Hvernig sérðu apótekin til framtíðar?

„Ég vil sjá lyfjafræðilega ráðgjöf í öllum apótekum þar sem fólk getur komið inn í apótekið og pantað viðtal sem er skráð í samvinnu við heilsugæsluna. Ég væri til í að sjá bólusetningar í apótekum og að lyfjafræðingar taki þátt í því í samstarfi við heilsugæsluna. Við erum að glíma við álag í heilbrigðisþjónustunni og það er skortur á heilbrigðisstarfsfólki og við lyfjafræðingar gætum jafnvel tekið þátt í að brúa bilið þegar fólk er í neyð og það næst ekki í lækni til að endurnýja lyfseðla þar sem sést hvað fólk er að taka. Það er verið að útbúa miðlægt lyfjakort sem apótekin og lyfjafræðingar fá aðgang að ásamt læknum og hjúkrunarfræðingum. Þar gætum við haft öryggið að leiðarljósi og tekið þátt þannig að ekki verði meðferðarrof. Ef fólki vantar lyfin sín en kemst ekki til læknis, að það fái þá þessa þjónustu í apótekum,“ segir Sigga Palla að endingu.