Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sjálfbær hjón með sýningu á Ljósanótt
Fimmtudagur 1. september 2016 kl. 12:00

Sjálfbær hjón með sýningu á Ljósanótt

- Verkfræðingur og listamaður nýta afganga í listsköpun

„Ég kalla hann oft doktor Douglas því hann getur lagað allt,“ segir Gunnhildur Þórðardóttir, listamaður, um eiginmann sinn Douglas Arthur Place, verkfræðing. Saman halda þau sýningu í Fisherhúsinu á Ljósanótt. Á sýningunni, sem ber yfirskriftina Re-Place, verða ný og eldri verk Gunnhildar og munir sem þau hjónin hafa hannað og smíðað saman. Munirnir verða til sölu á sýningunni.

Gunnhildur og Douglas kynntust í Cambridge árið 1999. Þá hafði hann nýlokið sínu námi þar en hún var rétt nýbyrjuð á sínu. Saman fluttu þau svo til Íslands eftir að hún hafði lokið námi í listmálun og listasögu og meistaranámi í liststjórnun. Fyrstu árin bjuggu þau í blokkaríbúð í Hafnarfirði en þegar ljóst var að fjórða barnið væri væntanlegt ákváðu þau að flytja til Reykjanesbæjar, þar sem Gunnhildur ólst upp. Þau eiga fjóra drengi á aldrinum þriggja til tólf ára. „Það var mikið frelsi að flytja aftur í heimahagana og að geta sett upp vinnustofu í skúrnum,“ segir Gunnhildur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Douglas starfar hjá Marel og Gunnhildur kennir við Myllubakkaskóla. Í frístundum sínum hafa þau hannað og smíðað ýmis húsgögn og muni og hafa alltaf sjálfbærni að leiðarljósi í verkum sínum, sem og í daglegu lífi. „Við notum það sem til er en kaupum aldrei nýtt hráefni, nema kannski skrúfur og annað smálegt. Þetta er okkar leið til að nota það sem er til,“ segir Douglas. Hann er þeirrar skoðunar að fólk hendi hlutum allt of snemma en að það hafi sem betur fer breyst í hruninu. „Fólk byrjar að endurnýta og laga þegar það hefur ekki efni á að kaupa nýtt en ég er hræddur um að með bættum efnahag fari fólk aftur að henda nothæfum hlutum.“ Á heimilinu hafa þau það sígilda mottó að eiga alltaf fyrir því sem þau kaupa og að nýta hlutina sem best. „Það er ákveðinn agi sem felst í því. Svo er það líka mjög gott fyrir umhverfið,“ segir Gunnhildur.

Samstarfið hjá Gunnhildi og Douglas hefur gengið vel og hafa þau framleitt ýmislegt á vinnustofunni sinni. „Þetta er frekar einfalt hjá okkur, ég teikna og sýni honum og svo svarar hann því hvort hægt sé að framkvæma hugmyndina eða ekki,“ segir Gunnhildur. Þegar fólk þarf að henda einhverju nýtilegu hugsar það oft til þeirra og kemur með frekar en að henda. „Maður situr því uppi með ýmislegt í skúrnum sem svo kemur yfirleitt að lokum að notum,“ segir Gunnhildur.

Fyrstu munirnir sem þau hönnuðu saman voru ýmis húsgögn fyrir börn, eins og til dæmis bókahillur úr trékössum sem til féllu hjá vínbúðum. Þá hafa þau einnig gert skemmtilegar veggklukkur og nýta í þær ónýta tússpenna enda mikið til af þeim á barnmörgu heimili. Í munina nýta þau einnig afgangsefni úr byggingariðnaði. Gunnhildur fylgir sömu stefnu í sinni listsköpun og nýtur aðstoðar frá Douglas, til dæmis við gerð skúlptúra en í þá notar hún afskurði af plexígleri.

Sýningin verður sem fyrr segir í Fisherhúsi og er gengið inn baka til. Hún stendur frá klukkan 19 til 21 í kvöld, fimmtudagskvöld og frá flukkan 14 til 18 á föstudag og laugardag.

[email protected]