Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Silfur í Gautaborg
Efri mynd: Björn Snævar þjálfari, Elvar Sturluson og Arnór Már Grímsson frá Akranesi. Á neðri mynd má sjá Björn Snævar.
Föstudagur 9. nóvember 2012 kl. 08:12

Silfur í Gautaborg

- Á einu stærsta áhugahnefaleikamóti heims

Hnefaleikakapparnir Björn Snævar Björnsson og Elvar Sturluson héldu til Svíþjóðar á dögunum þar sem þeir kepptu fyrir hönd HFR í hinu árlega ACBC boxmóti, sem er eitt það stærsta í heiminum. Var þetta í fyrsta sinn sem þessir kappar keppa á alþjóðavettvangi en Björn fór þó utan í sumar þar sem hann æfði við topp aðstæður í Las Vegas í Bandaríkjunum. Á mótinu í Svíþjóð voru rúmlega 600 keppendur, þ.á.m. 25 Íslendingar, en mótið er meðal þeirra stærstu sem haldin eru í heiminum fyrir áhugahnefaleikara.

Það er óhætt að segja að strákunum hafi gengið prýðilega en Elvar náði í sigur í sínum fyrsta bardaga, sem jafnframt var hans allra fyrsti bardagi á ferlinum, en mátti sætta sig við tap í þeim seinni eftir hetjulega baráttu. Elvar sem hóf að stunda hnefaleika af krafti fyrir tæpu ári síðan var virkilega ánægður með mótið og sagði í samtali við Víkurfréttir að reynslan væri ómetanleg. „Nú er bara að bæta sig enn frekar og mæta öflugur til leiks að ári liðnu, en stefnan er að fara aftur og keppa þá jafnvel í B-flokk,“ segir Elvar sem nú keppti í C-flokki í léttþungavikt þeirra sem einungis hafa 5 eða færri bardaga að baki. Elvar vann eins og áður segir sinn fyrsta bardaga en það dugði til þess að tryggja honum silfurverðlaun. „Gullið kemur þá bara næst,“ segir Elvar léttur í bragði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Björn Snævar sem keppti í A-flokki í 69 kg veltivigt, eða efsta styrkleikaflokki, drógst á móti gríðarlega öflugum andstæðingi en sá er Svíþjóðarmeistari og mikill reynslubolti. Birni gekk vel í bardaganum og tapaði naumlega. „Þar mætti ég einum erfiðasta andstæðingi sem ég hef átt við og hlaut ósigur eftir þrjár langar og annríkar lotur. Í lok mótsins fagnaði þessi svíi sigri á mótinu fjórða árið í röð,“ svo það er ljóst að Björn var ekki að etja kappi við neinn aukvisa.


Björn er einnig þjálfari Elvars og var hann gríðarlega stoltur af frammistöðu hans.
„Ég er gríðarlega stoltur þjálfari eftir þessa helgi. Elvar átti tvo hörkubardaga þar sem hann sýndi hreint frábæra takta, hann þurfti að sætta sig við nauman ósigur í seinni bardaganum en ekki mátti miklu muna,“ sagði Björn. Hnefaleikafélag Reykjaness stefnir að sjálfsögðu til Gautaborgar að ári enda mikilvæg reynsla sem fæst af mótum af þessari stærðargráðu. „Það munum við klárlega gera og þá með ennþá stærra lið heldur en í ár. Við erum með góða, upprennandi unglinga sem eiga eftir að koma sér vel fyrir í hringnum þarna.“