Mannlíf

Sigurvon fyrsta björgunarsveit Slysavarnafélags Íslands
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heiðraði félaga í Björgunarsveitinni Sigurvon á afmælisdaginn. Hann skellti sér á fjórhjól sveitarinnar og fékk stjórn Sigurvonar með sér á mynd. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 12. nóvember 2023 kl. 06:14

Sigurvon fyrsta björgunarsveit Slysavarnafélags Íslands

Björgunarsveitin Sigurvon fagnaði 95 ára afmæli sveitarinnar með afmælishátíð í björgunarstöðinni við Sandgerðishöfn síðasta sunnudag. Sveitin er fyrsta björgunarsveitin innan Slysavarnafélags Íslands, sem í dag heitir Slysavarnafélagið Landsbjörg. Húsfyllir var í afmælinu en forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heiðraði samkomuna og hélt ávarp. Í máli sínu minnti forseti á mikilvægi björgunarsveitanna í samfélaginu að fornu og nýju og sagði þær til merkis um þann samhug sem Íslendingar sýna þegar á reynir. Þá þakkaði hann liðsmönnum Sigurvonar allt þeirra fórnfúsa starf, ekki síst nú hin síðustu ár þegar sveitin hefur eflst mjög og dafnað.

Það kom fram í afmælisboðinu að allt starf Sigurvonar er í miklum blóma. Ný kynslóð hefur tekið við starfinu, ungir menn og konur, sem hafa lyft Grettistaki í endurnýjun búnaðar og þjálfunar á mannskap.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, ávarpaði einnig gesti í veislunni. Hann vitnaði til þeirra ára þegar hann var að byrja að starfa með björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík. Þá var horft til Sigurvonar sem stóra bróðurs, enda sveitin í Grindavík stofnuð 1930 og því tveimur árum yngri.

Þeir Kristófer Viktor, Tómas Logi og Jón þór með Otta Sigmarssyni, formanni Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Otti færði afmælisbarninu fallegan blómvönd.
Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, mætti með umslag sem innihélt peningagjöf til Sigurvonar.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, mætti einnig í pontu og ávarpaði gesti og kallaði Jón Þór Jónsson Hansen, formann Sigurvonar, upp og afhenti honum peningagjöf frá sveitarfélaginu.

Séra Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur, blessaði einnig samkomuna og færði afmælisbarninu gjafir.

Sníktu fisk fyrir húsbyggingu

Sigurður H. Guðjónsson heitinn var formaður Björgunarsveitarinnar Sigurvonar um árabil. Hann var í viðtali við Víkurfréttir 1982 og ræddi þar m.a. um stofnun Sigurvonar.

„Sveitin hérna var stofnuð í júní 1928 og var þar með fyrsta sveit sem stofnuð var innan Slysavarnafélags Íslands. Hún var fyrsta björgunarsveitin á Íslandi. Að vísu hafði áður verið stofnað Björgunarfélag Vestmannaeyja. Sigurvon var stofnuð fyrst og fremst sem sjóbjörgunarsveit og fljótlega eða 1929 kemur hingað fyrsti björgunarbáturinn, Þorsteinn, sem Þorsteinn Þorsteinsson, síðar forseti S.V.F.Í., gaf Slysavarnafélaginu og var sá bátur staðsettur í Sandgerði. Þá var smíðað yfir hann bátaskýli það sem nú stendur á lóð björgunarsveitarinnar. Er það jafnframt fyrsta björgunarstöð á Íslandi. Hús þetta komst í eigu hreppsins sem síðan gaf sveitinni það aftur með því skilyrði að hún fjarlægði það og bíður það nú eftir endurnýjun hér á lóðinni, og mun í framtíðinni hýsa fyrsta björgunarbátinn, Þorstein. Við eignuðumst hann fyrir nokkrum árum og tókst að bjarga honum frá eyðileggingu,“ sagði Sigurður m.a. í viðtalinu frá 1982.

Á þessum tíma var björgunarsveitin til húsa að Strandgötu 17 í Sandgerði í húsi sem björgunarsveitin hóf byggingu á árið 1971 og var vígt á 50 ára afmæli sveitarinnar 1978. Á þessum tíma voru fjáraflanir með öðrum hætti en í dag. Til dæmis var farið einu sinni á vertíð á bryggjuna til að sníkja fisk úr bátunum. Hann var svo verkaður, seldur beint eða verkaður í saltfisk og skreið. Einnig fékk Sigurvon gefins bílfarma af loðnu þegar loðnuvertíðin var og loðna var brædd í Sandgerði. Það eru breyttir tímar í dag.


Fleiri myndir úr afmælisveislunni má sjá í myndasafni neðst á síðunni.

Sigurvon 95 ára afmæli