Sigurbjörg: Páskaeggið aðeins fyrir málsháttinn
Sigurbjörg Eiríksdóttir húsmóðir í Heiðarbæ á Stafnesi ætlar að eyða páskunum heimavið í sveitasælunni á Stafnesi. Í næsta nágrenni við heimilið hennar rak búrhval á land í vikunni þannig að örugglega á eftir að vera mikil umferð um Stafnesið til að skoða dýrið sem þar rotnar í fjörunni. Við lögðum nokkrar spurningar fyrir Sigurbjörgu eða Sillu, eins og hún er kölluð.
- Hvernig á að verja páskunum?
„Vera í sveitinni hér og dunda mér“.
- Gefur þú mörg páskaegg eða færðu mörg egg?
„Nei, við gefum bara hvort öðru hjónakornin aðallega fyrir málsháttinn. Fimm börn, fjórtán barnabörn, eitt langömmubarn og nokkur önnur sem eiga mig sem ömmu er of mikill fjöldi að gefa,“ segir Sigurbjörg og brosir.
- Á að ferðast innanlands eða utan?
„Við förum til Hvammstanga, á fjölskyldumót en sennilega ekki til útlanda í sumar“.
- Hvernig sumar fáum við?
„Vonandi svipuð síðustu þremur sumrum. Þau voru góð!“.
- Hvernig hefur veturinn verið hjá þér?
„Í vetur hef ég aðallega hugað að nokkrum körlum sem hafa borðað mat hjá mér í hádeginu. Svo hef ég hugsað um barnabörnin, vinkonur, vini og ekki síst hef ég haft nógan tíma í gönguferðir og ræktun á „sjálfinu“.
Tíminn var stundum knappur hér áður þegar ég var með 7-8 manna heimili, vann uppi í flugstöð og bar út Moggann svona til að fylla upp í tímann. Ég nýt þess núna að vera til“.