Sigríður og Tobba sýna í Gallery Torg
Sigríður Bryndís Sigurjónsdóttir hefur opnað málverkasýningu í Gallery Torgi að Vitatorgi í Sandgerði. Þá hefur listakonan Tobba einnig opnað málverkasýningu í sama húsnæði. Sýningar Sigríðar og Tobbu eru sölusýningar sem munu standa yfir til 15. júlí og er Gallery Torg opið virka daga frá 18-20 og um helgar frá 14-19. Verkin á sýningunni eru olíumálverk en þetta mun vera fyrsta opinbera sýning Sigríðar.
Faðir Sigríðar var Sigurjón Ólafsson sem var um áratugabil vitavörður í Reykjanesvita en Sigríður ólst upp í vitahúsinu og á sýningunni eru nokkur málverk af Reykjanesvita og hans nánasta umhverfi.
„Þarna var ég alin upp og var þarna alveg þangað til ég fór að heiman,“ sagði Sigríður sem byrjaði að mála árið 1999. „Þetta er mín afþreying, t.d. í stað þess að horfa á sjónvarp þá mála ég,“ sagði Sigríður. Þó flest hennar verk á sýningunni séu af Reykjanesi þá bregður einnig fyrir nokkrum myndum af Þingvöllum og öðrum mætum stöðum Íslands.
VF-mynd/ [email protected]