Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sigríður Aðalsteinsdóttir er nýr verkefnastjóri í Virkjun
Miðvikudagur 12. september 2012 kl. 15:28

Sigríður Aðalsteinsdóttir er nýr verkefnastjóri í Virkjun

- Fjölbreytt vetrarstarf að hefjast í Virkjun.

Sigríður Aðalsteinsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri að Virkjun mannauðs á Reykjanesi og mun hún veita Virkjun forstöðu. Hún tekur við starfinu af Gunnari Halldóri Gunnarssyni sem hefur haldið til starfa á nýjum en þó ekki ótengdum vettvangi.

Sigríður er um þessar mundir að ljúka námi í stjórnun og stefnumótun við Háskóla Íslands og sótti um starf verkefnastjóra þegar það var auglýst í sumar.  Sigríður er menntuð í tónlist og uppeldis-og kennslufræðum.  Meistaraverkefni hennar frá viðskiptafræðideild HÍ er rannsóknarverkefni og fjallar um meðvirkni  innan skipulagsheilda.  Sigríður er fædd og uppaldi í Reykjavík og í Borgarfirði. Hún þekkir vel til á Suðurnesjum en hún bjó í Keflavík frá  1988 til 2002. Lauk stúdentsprófi af félagsfræðibraut Fjölbrautarskóla Suðurnesja og eignaðist hér tvö af þremur börnum sem öll gengu hér í leik-og grunnskóla.  Á námsárunum í Fjölbrautarskólanum  starfaði Sigríður við afgreiðslustörf, fiskvinnslu, hótelstörf í Reykjavík, í Vogum og í Keflavík.  Áður hafði hún starfað við tamningar og reiðkennslu í Austurríki,  við almenn sveitastörf, framleiðslustörf,  verksmiðjustörf o.fl.


Dagskrá Virkjunar verður eftir sem áður  fjölbreytt og sniðin að þörfum  og óskum fólksins sem hana sækir.  Í þessari og næstu vikum í september eru bæði í boði námskeið og hópastarf ýmiskonar. Starfið byrjar rólega en verður komið á fulla skrið á næstu vikum.

Að mati Sigríðar er mikil þörf á virkniúrræðum fyrir þá sem eiga við atvinnuleysi að stríða, eru óvinnufærir eða þurfa af einhverjum ástæðum að virkja sig til athafna og koma sér út úr vítahring aðgerðarleysis. Enginn velur sér slíkar aðstæður en því miður getum við lent í sálarlegu svartnætti þegar erfiðleikar steðja að. Afleiðingarnar eru þá oft vonleysi og depurð sem leitt geti til einangrunar.  Hlutverk Virkjunar sem virknimiðstöðvar er að laða að sér alla sem eru í hættu að lenda í þeirri gryfju. Þátttaka í starfsemi Virkjunar getur hjálpað. Jafnvel bara að skreppa og fá sér kaffibolla og kíkja í blöð eða sitja með prjónakonunum og spjalla, smella sér í billiard, hitta strákana á smíðaverkstæðinu, taka smá snúning í skrautskrift  eða í föndri, læra að sníða eða eiga stund í skemmtilegum tölvutíma getur hjálpað og lyft upp andanum. Flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi en ef ekki þá er ekkert annað en að smella hugmyndum á borð verkefnastjórans.
 
Öflugur föndurhópur er kominn í ganga og verður starfinu þar, sem og í öðrum hópum stýrt af sjálfboðaliðum sem gefa af sér reynslu og þekkingu á handverki. Fyrir þá sem farnir er að brjóta heilann um  jólin og hafa áhyggjur af jólagjöfum getur föndurstarfið  í Virkjun verið góð lausn.  Á smíðaverkstæði Virkjunar er starfsemin einnig að fara í gang.  Verkstæði ð er opið á  þriðjudögum og föstudögum í haust fyrir þá sem vilja virkja sig í smíðaföndri. Sníðanámskeið fyrir byrjendur hófst þann 24. september og námskeið í fatabreytingum og viðgerðum hefst þann 26. september. Kominn er upp sproti af bókakaffi sem mun þróast áfram næstu vikurnar. Sigríður hvetur þá sem luma á bókum sem þeir vilja losna við að koma með þær í Virkjun þar sem þeirra verður notið áfram. Verið er að skipuleggja nýtt barnahorn og eru þeir foreldrar sem vilja koma til að taka þátt í starfi Virkjunar hvattir til að taka þátt í því ef þeir hafa áhuga.

Það er von Sigríðar að það spretti aftur upp gönguhópar og hún hvetur þá sem vilja mynda göngu-hjóla eða aðra hreyfingarhópa til að koma með hugmyndir af markvissu starfi í Virkjun. Einnig þá sem hafa áhuga á heilsusamlegri og ódýrri eldamennsku. Sjálf vonast Sigríður , sem er mikil hundakona, til að þeir sem eiga hunda hafi áhuga á því að hittast reglulega í Virkjun til að fara í göngu með besta vininn einu sinni til tvisvar í viku.


Sigríður hvetur alla sem hafa áhuga á því að kynna sér starf Virkjunar að kíkja við í kaffi á virkum dögum á milli 8:00 og 16:00 nema á föstudögum 8:00-14:00. Dagskrá vikunnar liggur þar uppi,  allir eru velkomnir og fólk er hvatt til að nýta sér eigið hugmyndaflug að verkefnum  sem getur aukið við flóru námskeiða og hópa í Virkjun.  Verkefnastjórinn er alltaf opinn fyrir hugmyndum. Meginmarkmiðið er að hugmyndirnar virki sköpun og fræðslu séu sjálfbærar og laði að sér fólk.

Virkjun er með aðsetur í byggingu 740 á Ásbrú í Reykjanesbæ.  Heimasíða Virkjunar er komin í loftið: www.virkjun.net. Starfið í Virkjun er háð fjárframlögum opinberra aðla og einkaaðila og er þeim þakkað af heilum hug. Bráðlega verður farið af stað með fjár- og efnisöflun fyrir starfsárið 2013.  Sigríður vonast til að Virkjun muni eftir sem áður njóta velvildar  allra þeirra sem stutt hafa við bakið á Virkjun og þeim sem nýta sér  það sem hún hefur upp á að bjóða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024