Bilakjarninn
Bilakjarninn

Mannlíf

Sígarettur og vindlar og matarveisla af bestu gerð
Ása með foreldrum og systrum á fermingardaginn.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 26. mars 2022 kl. 09:35

Sígarettur og vindlar og matarveisla af bestu gerð

Ása Guðmundsdóttir fékk Ítalíuferð með foreldrum sínum 
í fermingargjöf og útsaumaða mynd frá afa sínum. Fermingarfötin voru keypt í Karnabæ og það var tvíd dragt.

Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú rifjar upp ferminguna þína?

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Það sem kemur fyrst upp í huga minn um ferminguna mína er að ég var svo spennt að fermast að þremur vikum fyrir fermingu leið yfir mig inni á baði heima og ég fékk skurð við augað. Pabbi sagði að það þyrfti ekki að fara með mig til læknis og skipstjórinn sá sjálfur um að búa um sárið á dóttur sinni. Já sumir pabbar kunna og geta gert allt. En fermingin sjálf gekk vel. Ég var í fyrsta árganginum sem fermdist í Ytri- Njarðvíkurkirkju og vorum við krakkarnir stolt af því.

Af hverju léstu ferma þig?

Ég var nú ekki mikið að pæla í því af hverju ég væri að fermast ég var bara mjög spennt að halda veislu og fá nokkrar gjafir ha..ha…

Hvernig var fermingarundirbúningurinn?

Fermingarundirbúningurinn var skemmtilegur, séra Þorvaldur sá um að fræða okkur.

Var haldin veisla?

Fermingarveislan var haldin heima á Hæðargötu og Axel Jónsson sá um veitingarnar, við vorum með matarveislu af bestu gerð. Þegar ég fermdist var tíðarandinn annar en í dag, ég man að það var boðið upp á sígarettur og vindla það þótti mjög smart.

Fermingarfötin og skórnir? 

Fermingarfötin voru keypt í Karnabæ og það var tvíd dragt, ég man að ég var mjög ánægð með fötin mín. 

Eftirminnilegustu fermingargjafirnar?

Eftirminnilegasta gjöfin var ferð til Ítalíu á Lignano ströndina með mömmu og pabba, þetta var yndisleg ferð, ég var svo ánægð því ég var bara ein með þeim. Það var eitthvað sem gerðist ekki oft því ég var elst af systrunum. Þannig að þessi Ítalíuferð var algjör draumaferð fyrir mig, mömmu og pabba. Guðmundur afi á Brekkubrautinni saumaði út mynd sem hann gaf mér í fermingargjöf og mér þykir ákaflega vænt um þá gjöf. Fermingardagurinn minn var 29. apríl 1979 og í minningunni var það fallegur og góður dagur.



Guðrún Sigmundsdóttir og Guðmundur Gíslason, amma hennar og afi á  Brekkubrautinni í Keflavík, þau voru Ásu mjög kær.

Ása á fermingardaginn 29. apríl 1979.