Síðasta verk bæjarins að gefa út Sögu Sandgerðis
- útgáfu bókarinnar frestað í hruni og þrengingum Sandgerðisbæjar
Út er komin bókin „Saga Sandgerðis – Byggð í Miðneshreppi og Sandgerði 1907-2007“. Bókin var formlega gefin út á fundi bæjarstjórnar Sandgerðis þann 5. júní sl. en þar var 392. og síðastu fundur bæjarstjórnar Sandgerðis. Nú heyrir sveitarfélagið sögunni til en sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis varð formlega til sl. sunnudag.
Anna Ólafsdóttir Björnsson ritstýrði bókinni og afhenti Sigrúnu Árnadóttur bæjarstjóra fyrsta eintakið af bókinni. Viðstaddir voru sviðsstjórar Sandgerðisbæjar ásamt þeim sem setið hafa sem aðalfulltrúar í bæjarstjórn og þeim sem verið hafa sveitarstjórar og bæjarstjórar í Miðneshreppi og Sandgerðisbæ.
Kápa bókarinnar
Fram kom við afhendingu bókarinnar að hún hafi verið tilbúin til útgáfu árið 2008 en vegna aðstæðna sem þá sköpuðust í þjóðfélaginu og ekki síður fjárhagsþrengingar hjá Sandgerðisbæ var ákveðið að fresta útgáfu bókarinnar um óákveðinn tíma. Þegar svo kom að þeim tímamótum að Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður myndu sameinast var ákveðið að ráðast í prentun bókarinnar. Allir voru hins vegar sammála um það að sú ákvörðun að fresta útgáfunni þar til nú hafi verið til þess að gera bókina enn betri. Talsvert hafi safnast af myndum síðustu ár sem séu í bókinni.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, höfundur Sögu Sandgerðis, tekur við blómum frá Ólafi Þór Ólafssyni, forseta bæjarstjórnar Sandgerðis. Vf-myndir: Hilmar Bragi
Bæjarstjórn fagnaði útkomu annars bindis af Sögu Sandgerðis með sérstakri bókun. Þar þakkar bæjarstjórn höfundinum Önnu Ólafsdóttur Björnsson og ritnefndinni; Sigurði Vali Ásbjarnarsyni, Reyni Sveinssyni og Sigurði Hilmari Guðjónssyni fyrir þeirra vinnu að gerð bókarinnar. Þá þakkar bæjarstjórn Sigrúnu Árnadóttur bæjarstjóra og Guðjóni Þ. Kristjánssyni fyrir þeirra þátt við lokafrágang og útgáfu bókarinnar.
Saga Sandgerðis verður boðin til sölu en bókina má kaupa á bæjarskrifstufunni í Vörðunni í Sandgerði.