Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Síðasta tréð frá Kristiansand uppljómað á ráðhústorgi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 6. desember 2019 kl. 10:31

Síðasta tréð frá Kristiansand uppljómað á ráðhústorgi

Ljósin á vinabæjarjólatrénu frá Kristiansand voru tendruð í fimmtugasta og áttunda sinn sl.laugardag á ráðhústorgi í Reykjanesbæ.

Þetta var jafnframt í síðasta skiptið sem Reykjanesbær fær tré að gjöf frá norska bænum. Ástæðan er sú að fyrr á þessu ári sleit Kristiansand formlegu vinabæjarsamstarfi við norræna vinabæi sína Reykjanesbæ, Kerava og Trollhättan en bærinn sameinast á þessu ári tveimur nágrannasveitarfélögum og endurskoðar af því tilefni alþjóðlegt samstarf sitt. Eftir sem áður verður gott á milli bæjanna eins og bæjaryfirvöld í Kristiansand sýndu í verki með því að senda Reykjanesbæ þessa kærkomnu jólagjöf í síðasta sinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dagskráin á ráðhústorginu var hefðbundin í ár. Mats Benestad sendiráðsritari í sendiráði Noregs á Íslandi flutti bæjarbúum kveðju frá Kristiansand á fínni íslensku. Mats kemur frá norska bænum og tók við þakkarskjölum sem Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar, afhenti honum eftir að hafa tekið formlega á móti trénu.

Leikhópurinn Lotta sá svo um að skemmta yngstu bæjarbúunum og jólasveinar komu í heimsókn og dönsuðu í kringum jólatréð. Þá lék lúðrasveit frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar jólalög og allir sem vildu gátu fengið heitt kakó og piparkökur.

Ljósmyndari Víkurfrétta tók meðfylgjandi ljósmyndir í jólagleðinni á ráðhústorginu.

Jólaljós tendruð í Reykjanesbæ 2019