Síðasta sýningarhelgi Steinunnar Marteinsdóttur á Listasafni Reykjanesbæjar
Sunnudaginn 14. október lýkur einkasýningu Steinunnar Marteinsdóttur á Listasafni Reykjanesbæjar. Listamaðurinn verður með leiðsögn um sýninguna þennan sama dag kl. 15.00 og eru allir velkomnir.
Sýningin ber heitið Verk 1961-2006 og má þar líta úrval keramikverka Steinunnar síðustu 45 árin. Einnig eru til sýnis málverk unnin á síðustu tveimur árum. Sýningin hefur verið fjölsótt og fengið jákvæða umfjöllun. Í dómi í Morgunblaðinu mátti m.a. lesa um sýninguna: “Á sýningu Steinunnar nú eru nokkur verk sem kalla má meiriháttar, verk sem ekki geta orðið til nema með einstaklega góðri færni og þekkingu á miðlinum jafnt sem útfærslunni.”
Sýningin er opin alla daga frá kl. 13.00-17.30 og er staðsett í sýningarsal Listasafnsins í Duushúsum, Duusgötu 2-10 í Reykjanesbæ.
Mynd: Steinunn Marteinsdóttir við opnun sýningarinnar í Listasafni Reykjanesbæjar.