Síðasta kvöldmáltíðin hjá Leikfélagi Keflavíkur
Frumsýnt á fjórum stöðum á landinu
Á skírdag var verkið „Síðasta kvöldmáltíðin“ sýnt af Leikfélagi Keflavíkur. Verkið var sviðslistaverk í formi gönguferðar, sem leiddi áhorfandann til móts við eigin lífsgildi og fékk hann til þess að spyrja sig spurninga varðandi lífið og tilveruna. Hver ganga var kortlögð í kringum sögu og andrúmsloft hvers staðar fyrir sig og unnin upp úr viðtölum við íbúa á hverjum stað, en verkið var einnig flutt á Raufarhöfn, Bolungarvík og á Höfn í Hornafirði. Verkið var flutt frá sólarupprás til sólarlags og opið var fyrir alla gesti endurgjaldslaust.
Samkvæmt síðu verkefnisins á Facebook var því ætlað að skoða og draga fram hugmyndir íbúanna um gott líf, hvað skipti þá mestu máli, hverjar helstu áskoranir fólksins á þessum stöðum hafi verið og hvaða drauma og framtíðarsýn það hafi.
Listrænir stjórnendur verksins voru Hallur Ingólfsson, Rebekka A. Ingimundardóttir og Steinunn Knútsdóttir en verkefnastjóri sýningarinnar hjá Leikfélagi Keflavíkur var Halla Karen Guðjónsdóttir.