Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 10. júlí 2000 kl. 13:09

Setur fyrir fróðleiksfúsa í Sandgerði

Fræðasetrið í Sandgerði inniheldur fjölda uppstoppaðra dýra, fugla og ferfætlinga, þ.á.m. eini uppstoppaði rostungur landsins, ásamt lifandi krabbadýrum, krossfiskum, kolkröbbum o.fl. Einnig er mikið af smádýrum í rotvarnarvökva, sem hægt er að skoða í smásjá. Þá eru þar ferskvatnsbúr með lifandi dýrum úr tjörnum í nágrenninu. „Safnið er nokkurs konar náttúrugripasafn, sem tengir saman mann og náttúru, en einnig segir það sögu Miðness, allt frá gamalli tíð til nútímans“, segir Reynir Sveinsson, sem sér um rekstur Fræðasetursins. Allir ættu að geta fundið eitthvað sem vekur áhuga þeirra á náttúrunni í Fræðasetrinu, en þar er safn plantna, eggja og steina, ásamt kíkjaleigu fyrir fuglaskoðun. Gestum safnsins býðst að fara í fjöru- og tjarnaferðir, þar sem þeir geta sjálfir safnað sér smádýrum til að skoða nánar í smásjá. Þá býður safnið upp á skemmtilegar göngu- og rútuferðir undir leiðsögn, um útgerðar- og verslunarbæina á Rosmhvalanesi. Þeir sem heimsækja Suðurnesin í sumar ættu að gefa sér góðan tíma til að skoða Fræðasetrið í Sandgerði og það sem þar er boðið upp á.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024