Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Setja upp Söngleikinn Grís í Frumleikhúsinu
Miðvikudagur 25. september 2013 kl. 09:28

Setja upp Söngleikinn Grís í Frumleikhúsinu

Hópur unglinga af Suðurnesjum hefur verið að æfa söngleikinn Grís undanfarnar vikur í Frumleikhúsinu í Keflavík. Hópurinn var á sviðinu að dansa og syngja þegar Víkurfréttir kíktu við á æfingu í vikunni Ekki var annað að sjá en að ungmennin skemmtu sér vel undir leikstjórn þeirra Guðnýjar Kristjánsdóttur og Höllu Karenar Guðjónsdóttur, sem báðar eru þaulreyndar leikhúsvinnu með Leikfélagi Keflavíkur.

Hvað er það sem fær unglinga til þess að taka þátt í svona sýningu? Í samtali við blaðamenn kom fram að það eru greinilega misjafnar ástæður en flestir komu til þess að öðlast reynslu af leikhúsvinnu, vera í skemmtilegum félagsskap og til þess að auka sjálfstraustið.

„Þetta eru allt alveg frábærir krakkar, flest að  taka þátt í leikuppfærslu hér í fyrsta skipti en við erum einstaklega heppnar með hópinn,“ sögðu þær Guðný og Halla en krakkarnir voru sammála um að þær stöllur væru bestu leikstjórar í heimi.  Æfingarnar eru að verða stífari enda ekki nema rétt rúm vika í frumsýninguna og þá reynir á eitt og annað í ferlinu.

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt en getur verið pínu erfitt að hafa hljóð á æfingum og svo er frekar heitt á sviðinu,“ sögðu krakkarnir og bættu við að þetta hefði verið auðveldara en þau hefðu haldið í fyrstu og hópurinn næði ótrúlega vel saman.

„Það eru foréttindi fyrir unglinga að fá að kynnast leiklist og það í alvöru leikhúsi þar sem allt er til alls en það eru líka forréttindi fyrir okkur leikstýrurnar að fá að vinna við það sem við höfum áhuga á með svona flottum hópi barna sem koma úr Reykjanesbæ, Vogunum, Sandgerði og Garði og við hvetjum að sjálfsögðu alla Suðurnesjamenn til þess að koma og sjá þessa hæfileikaríku krakka,“ sögðu þær stöllur.

Söngleikurinn verður frumsýndur föstudaginn 4. október kl.20.00, 2.sýning verður sunnudaginn 6.okt. kl. 16.00. Sýningarnar verða nánar auglýstar í næsta tölublaði Víkurfrétta í næstu viku.

Hópurinn vildi koma á framfæri þakklæti til þeirra aðila sem styrkt hafa uppsetninguna á einhvern hátt og foreldrum/fjölskyldum fyrir einstaka þolinmæði og skilning á fjarveru þátttakenda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024