Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sérstök upplifun að geta ekki faðmað pabba
Laugardagur 25. apríl 2020 kl. 00:05

Sérstök upplifun að geta ekki faðmað pabba

Aníta Lind Róbertsdóttir Fisher, leiðbeinandi í Myllubakkaskóla, ætlaði sér að verja páskunum erlendis en var þess í stað heima og vonar að Ljósanótt haldist óbreytt.

– Hvernig ert þú að upplifa ástandið í kringum COVID-19?

Eins og eflaust flestum þykir mér ástandið óþægilegt en ég hef verið jákvæð og gert það besta úr aðstæðum. Erfiðast þykir mér að geta ekki umgengist ömmu mína og afa eins og ég er vön.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Hefurðu áhyggjur?

Ég hafði áhyggjur áður en samkomubann var sett á og skólahald breyttist. Ég vinn með elsta stigi í grunnskóla og eru skólastofurnar yfirleitt þétt setnar, því var mér létt þegar samkomubannið var sett á.

– Hvaða áhrif hefur faraldurinn á þitt daglega líf?

Faraldurinn hefur haft töluverð áhrif á síðastliðnar vikur. Við fjölskyldan ætluðum okkur að eyða páskunum erlendis en í stað þess eyddum við þeim saman heima sem var notalegt. Varðandi vinnu þá hafði samkomubannið þau áhrif að elsta stig grunnskóla stundaði heimanám í fjarskiptum við kennara, svo það hafði töluverð áhrif á daglegt líf að mæta ekki í vinnu daglega. Ég nýtti dagana í fjarskipti við nemendur og með fjölskyldunni sem var einnig mikið heima.

– Ert þú eða þitt fólk í sóttkví?

Pabbi minn fór í sóttkví eftir heimkomu frá Bandaríkjunum. Það var sérstök upplifun, að geta ekki faðmað hann og umgengist eftir langa fjarveru erlendis.

– Hvenær fórstu að taka COVID-19 alvarlega?

Ég tók COVID-19 alvarlega um leið og fréttir fóru að berast af veirunni. Um miðjan febrúar, áður en veiran varð útbreidd í Evrópu og Bandaríkjunum, fór ég til New York og stóð mér ekki á sama, sérstaklega á flugvöllunum.

– Hvað varð til þess?

Ég sá í fréttum hve alvarleg veiran er og hve auðveldlega hún smitast.

– Hvernig ert þú að fara varlega?

Ég hef frá upphafi veirunnar gætt fyllstu varúðar hvað varðar hreinlæti og samskipti við fólk. Nú er elsta stigið farið að mæta aftur í skólann svo það skiptir miklu máli að gæta að hreinlæti þar og höldum við tveggja metra fjarlægð eins og unnt er.

– Hvernig finnst þér stjórnvöld standa sig í sóttvörnum?

Mér finnst stjórnvöld standa sig yfirburða vel.

– Finnst þér fólk vera taka tilmælum yfirvalda nógu alvarlega?

Mitt nánasta fólk gerir það og almenningur í flestum tilfellum. Ég vona að fólk haldi áfram að fylgja fyrirmælum stjórnvalda og gæta fyllstu varúðar þar sem mikið er í húfi.

– Hvað finnst þér mikilvægast á þessum tímum?

Mér þykir mikilvægast að nýta tímann í að sinna andlegri og líkamlegri heilsu. Mér finnst einnig mikilvægt að þjóðin dragi lærdóm af heimsfaraldrinum. Við tökum oft lífinu, heilsunni, og umhverfi okkar sem sjálfsögðu. Heimsfaraldurinn hefur verið okkur góð áminning hve þakklát við megum vera fyrir ofantalda þætti. Mér þykir vert að minnast á hve þakklát við megum vera fyrir heilbrigðisstarfsfólkið okkar sem og aðra framlínustarfsmenn, til dæmis kennara og afgreiðslufólk í matvörubúðum sem hefur þurft að standa vaktina til að halda samfélaginu gangandi eins og unnt hefur verið.

– Hvernig finnst þér sveitarfélagið standa sig í þessum málum?

Ég hef því miður ekki kynnt mér úrræði sveitarfélagsins en ég geri ráð fyrir að sveitarfélagið sé að vinna að úrræðum til úrlausna vegna ástandsins sem hefur sérstaklega mikil áhrif á Reykjanesbæ hvað varðar atvinnuleysi.

– Er samkomubannið að hafa áhrif á þig?

Ég er ekki mikið fyrir samkomur en mér þykir gaman að fara út að borða svo það hefur haft áhrif á það. Í stað þess höfum við kærasti minn verið dugleg að fara í sumarbústað og elda þar góðan mat, vert er að taka það fram að við héldum okkur að sjálfsögðu heima yfir páskana samkvæmt tilmælum Víðis.

– Hvernig hagar þú innkaupum í dag?

Við mamma förum í matvöruverslanir en reynum að gera það sem sjaldnast og förum varlega.

– Hvað gerir þú ráð fyrir að ástandið muni vara lengi?

Það er erfitt að segja til um það.

– Þegar faraldurinn er yfirstaðinn, gerir þú ráð fyrir að ferðast innanlands eða utan?

Ég ætla að ferðast innanlands í sumar en erlendis um leið og það er talið öruggt.

– Er einhver sérstakur viðburður eða dagur sem þú hræðist að verði aflýst?

Ég er ekki mikið fyrir samkomur svo ég hef ekki miklar áhyggjur af því en ég vona að Ljósanótt haldist óbreytt þar sem hún er mikilvæg fyrir samfélagið okkar í Reykjanesbæ.

SJÁIÐ NÝJUSTU VÍKURFRÉTTIR 62 BLS. TROÐFULLAR AF FLOTTU EFNI!