Sérstakt að hafa allt þetta fólk fyrir framan sig í beinni á tölvuskjá
Silja Dögg Gunnarsdóttir upplifði sérstaka formennsku í Norðurlandaráði
„Forsetatíð okkar Oddnýjar varð nú með allt öðrum hætti en við bjuggumst við þegar við stóðum þarna með blómvendina í fanginu í Stokkhólmi fyrir ári síðan, þá nýkjörnar forseti og varaforseti Norðurlandaráðs,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona um störf hennar og Oddnýjar Harðardóttur í Norðurlandaráði.
Þingmenn Norðurlandaráðs funduðu með öllum forsætisráðherrum Norðurlandanna og aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres í síðustu viku. Umræðuefnið var Covid, viðbrögð við farsóttinni, hugsanlegar afleiðingar og hvernig við gætum brugðist við.
Rafrænt Norðurlandaráð
„Þrátt fyrir að starfsemi Norðurlandaráðs hafi verið römmuð inn á annan hátt en áður þá hefur hið pólitíska starf innan ráðsins ekki raskast að neinu ráði, ef þá nokkuð.
Við höfum lagt mikla áherslu á samþykkta stefnu Norðurlandaráðs um samfélagslegt öryggi sem og að komið verði á fót ráðherranefnd um samgöngur. Að auki höfum við verið í öflugu alþjóðlegu samstarfi, m.a. átt fundi með forseta skoska þingsins, forseta pólska þingsins og stjórnarandstöðunni þar, tekið þátt í þingmannaráðstefnum Eystrasaltsríkja og Benelux-ríkja, tekið þátt í málþingum um falskar fréttir og fundað með forystufólki stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi svo eitthvað sé nefnt. Á dagskrá þessara funda hafa áherslur verið á lýðræði, mannréttindi og réttarríkið en það eru þau gildi sem starfsemi Norðurlandaráðs og norrænnar samvinnu grundvallast á.“
Silja segir að fjarfundaformið hafi reynst vel, að vísu hafi smá tæknilegir hnökrar verið til að byrja með. „Bæði voru kerfin ekki gallalaus og notendur ekki vanir að nota slík kerfi og voru jafnvel ekki með þann búnað sem til þurfti eða nógu góðar nettengingar. Við erum auðvitað búin að læra margt og mikið á þessum tíma, hvað varðar fjarfundi og fjarfundatækni, því hún er allt öðruvísi en á venjulegum fundum. Verklagið er öðruvísi og innra skipulag þegar um er að ræða fjölmenna alþjóðlega fundi.“
Hápunktur ársins
Silja segir að síðastliðin vika hafi án efa verið hápunktur ársins hjá Norðurlandaráði, eða hefðbundin þingvika Norðurlandaráðs.
„Vegna Covid var ekki um eiginlegt þing að ræða en það hefði átt að fara fram í Hörpunni í Reykjavík og verðlaunaafhending Norðurlandaráðs einnig. Í staðinn funduðum við sleitulaust á fjarfundum, nefndir Norðurlandaráðs, flokkahóparnir og svo átti forsætisnefnd fundi með forsætisráðherrum allra Norðurlanda, varnarmálaráðherrum, utanríkisráðherrum og að lokum þeim ráðherrum sem hafa almannavarnir í sínum ráðuneytum. Þessir fundir voru lokaðir en forsætisnefnd og forsætisráðherrar Norðurlanda, funduðu einnig með framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres. Þeim fundi var streymt víða um heim.
Ég var gestgjafi fundarins og hélt smá ræðu áður en ég gaf Guterres orðið. Ég verð viðurkenna að það var sérstök tilfinning að sitja fyrir framan tölvuskjá og hafa allt þetta fólk fyrir framan sig í beinni, Guterres og svo alla forsætisráðherra Norðurlanda. Það var heldur ekki hlaupið að því að fá Guterres á fund okkar í Norðurlandaráði, og því var þetta alveg einstakur viðburður sem vakti heimsathygli en fundinum var streymt í beinni um allan heim. Sameinuðu þjóðirnar eru 75 ára á þessu ári og Norðurlöndin áttu ríkan þátt í að þeim var komið á fót á sínum tíma. Fyrstu tveir aðalritarar Sameinuðu þjóðanna voru frá Norðurlöndum, þ.e. fyrst Trygve Lie frá Noregi til 1952 og síðan Dag Hammarskjöld frá Svíþjóð til 1961. Þess vegna skipti þessi fundur líka miklu máli, þ.e. að undirstrika þessa sterku tengingu SÞ og Norðulandanna, sögu okkar og sameiginleg grunngildi.“
Í ræðu sinni sagði Guterres m.a.: „Við reiðum okkur á Norðurlönd. Þið hafið um langa hríð verið öflugir talsmenn metnaðarfullra aðgerða í loftslagsmálum. Heimurinn þarf meira á forystu ykkar að halda nú en nokkru sinni fyrr.“
Mikilvægt að þetta raðirnar
Þingkonan er ekki í vafa um að þessi reynslu muni hafa jákvæð áhrif á starfsemi Norðurlandaráðs til lengri tíma og norrænt samstarf almennt.
„Covid hefur sýnt okkur hversu mikilvægt það er að þétta raðirnar þegar á reynir. Við höfum tileinkað okkur fjarfundatækni og í því felast tækifæri til að fækka ferðum, fækka kolefnissporum og efla samstarfið enn frekar því slíkt bíður upp á fjölgun funda þar sem afar einfalt er að koma þeim á með skömmum fyrirvara og lítill kostnaður. Saman erum við sterkari,“ segir Silja Dögg.
Silja Dögg í pontu norska þingsins (Stortinget).