Sér nýjustu uppgötvanirnar í Vísindaappi
og horfir á NBA með „league pass“
Einar Thorlacius Magnússon er 24 ára Njarðvíkingur. Hann vinnur í hlaðdeildinni hjá IGS á Keflavíkurflugvelli og hefur gaman að körfubolta. Hann, ásamt nokkrum vel völdum félögum, leigir íþróttasalinn í Vogunum tvisvar í viku til að spila körfu. Auk þess spilar hann körfubolta með gamlingjunum í Njarðvík-B þegar hann hefur tíma. Einar hefur gaman að alls kyns fróðleik og horfir á mikið af þáttum og bíómyndum. Við báðum Einar um að segja okkur frá hans uppáhalds snjallsímaöppum.
NBA: Fyrir körfuboltaáhugamann eins og mig er mikilvægt að fylgjast með deild þeirra bestu. Aðallega nota ég appið til að horfa á leiki í gegnum „League Pass,“ en þar getur þú horft á hvaða leiki sem þú vilt, hvenær sem þú vilt. Algjör snilld fyrir „næturdeildina.“
Duolingo: Besta appið til að læra tungumál. Einfalt í notkun og öll stærstu tungumál í heimi eru inni á appinu. Þú getur stillt hversu lengi þú vilt læra á hverjum degi og getur sett áminningu ef þú villt læra á ákveðnum tíma sólahringsins. Ég er til dæmis nýbyrjaður að læra rússnesku, очень хорошо!
Alfreð: Mjög sniðugt app ef þú ert atvinnulaus eða í leit að nýrri vinnu. Það sýnir laus störf um land allt á mjög einfaldan og þægilegan hátt, sem er andstæðan við síður eins og störf.is, sem oft er þungt að „skrolla“ í gegnum. Er ennþá með appið þó ég sé með vinnu enda veit maður aldrei hvenær draumastarfið birtist á skjánum.
Science news: Fyrir mann eins og mig sem hefur gaman af alls konar fróðleik um heiminn þá er Science News frábær síða. Þar færðu allar nýjustu fréttir úr heimi tækni og vísinda á einum stað og býður appið upp á að flokka vísindagreinar ef þú villt skoða eina frekar en aðra. Á appinu færðu daglegan skammt af „amazement“ yfir nýjustu uppgötvununum.
Veður: Þegar þú býrð á Íslandi þá er nauðsynlegt að vita hvernig veðrið verður á morgun. Sérstaklega gott í vetur þegar kemur að því að vakna fyrr til að skafa, þá er fínt að vita hvort það sé næturfrost, þótt íslenska veðrið gefi oft skít í veðurspána.