Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sendir frá sér sögu um Bjöllu og ófleygan bæjarstjóra
Þröstur ólst upp í Keflavík en býr nú á Ísafirði.
Laugardagur 3. desember 2016 kl. 06:00

Sendir frá sér sögu um Bjöllu og ófleygan bæjarstjóra

Rithöfundar eru á ferð og flugi um landið þessa dagana að kynna bækur sínar. Einn af þeim er Keflvíkingurinn Þröstur Jóhannesson. Þröstur býr nú á Ísafirði og hefur búið þar síðustu ár. Hann mætti í sinn gamla heimabæ síðasta fimmtudag til að kynna nýju bókina sína á Bókasafni Reykjanesbæjar. Bókin heitir Bjalla og bæjarstjórinn sem gat ekki flogið og er barnabók.
Þetta er önnur bók Þrastar en áður gaf hann út bókina Sagan af Jóa árið 2013. Þröstur er einnig tónlistarmaður og hefur verið í nokkrum hljómsveitum í gegnum tíðina og má þar nefna Ofris, Vonlausa tríóið, Texas Jesús, Hinir Guðdómlegu Neanderdalsmenn og Unaðsdal, ásamt því að hafa gefið út tvær sólóplötur:  Aðra Sálma árið 2006 og Vorið góða árið 2009. Eins og áður sagði mætti hann á Bókasafn Reykjanesbæjar og var að sjálfsögðu með gítarinn meðferðis. Hann tók eitt Hank Williams lag í byrjun og las síðan upp úr nýju bókinni sinni.

Sagan um Bjöllu og bæjarstjórann sem gat ekki flogið fjallar um stúlkuna Bjöllu sem býr í geitakofa í villta vestrinu. „Villta vestrið var í miklu uppáhaldi hjá mér í æsku. Ég var djúpt sokkinn í kúrekamyndir,“ segir Þröstur. Í upphafi sögunnar býr Bjalla með útlaganum Gussa fingralanga og þekkir engan annan en hann. „Svo hverfur Gussi og þá röltir Bjalla yfir að Gullhóli og kynnir sig þar og segist vera indíáni. Þar búa Dóri skáld og Ívar klæðskeri. Þeir taka við henni og þá byrjar nýtt líf hjá Bjöllu. Mikið er að gera hjá Dóra skáldi og Ívari klæðskera þar sem kvenfélagsbasarinn í Rjómabæ er yfirvofandi og Bjalla fer því að aðstoða við undirbúning hans.  Fljótlega er hún sökuð um stuld og æsast þá leikar. En svo segi ég ekki meira,“ segir Þröstur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sagan um Bjöllu er önnur bók Þrastar en hann sendi frá sér Söguna af Jóa árið 2013. Í þeirri bók var Keflavík sögusviðið. Þröstur hefur einnig samið fjölda texta og ljóða. Samhliða skrifunum vinnur Þröstur hjá Vegagerðinni á Ísafirði. Hann segir gott að búa fyrir vestan en það tók hann svolítinn tíma að venjast fjöllunum í bakgarðinum, eftir að hafa alist upp í Keflavík og fjöllin öll í hæfilegri fjarlægð.  En lognið fyrir vestan kann Þröstur vel að meta.