Sandgerðismær fékk draumadjobbið
Sandra Rún Jónsdóttir hefur tekið við skólastjórn Tónlistarskóla Rangæinga
„Þegar ég sá auglýsinguna um skólastjórastöðuna hjá Tónlistarskóla Rangæinga varð ég mjög spennt því þetta var akkúrat það sem mig hafði dreymt um, að komast út á land og vinnan sem mig langaði í svo það get ekki verið betra,“ segir Sandgerðingurinn Sandra Rún Jónsdóttir sem hefur verið ráðin í starf skólastjóra Tónlistarskóla Rangæinga.
Sandra Rún er 26 ára og er með bakkalárgráðu frá Listaháskóla Íslands í skapandi tónlistarmiðlun auk meistaragráðu frá Barklee Collage of Music (Global Entertainment and Music Business). Hún starfar nú sem skóla- og hljómsveitarstjóri hjá Skólahljómsveit Austurbæjar en hefur einnig sinnt tónlistarkennslu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Tónlistarskólann í Garði auk þess að starfa sem deildarfulltrúi við Tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hún stundaði tónlistarnám frá barnsaldri og leikur á blásturshljóðfæri. Hún hefur tekið þátt í lúðrasveitarstarfi, spilað með léttsveit og starfað með Bjöllukór Tónlistarskólans í Reykjanesbæ. Þá hefur Sandra Rún tekið virkan þátt í margvíslegu kóra- og leikhússtarfi.
Sandra er í viðtali við Víkurfréttir sem má sjá í nýjasta blaðinu sem kemur út í kvöld, miðvikudag.