Sandgerðingum borgað fyrir að mæta í jarðarför
– Glæpasögur fyrir þýskt sjónvarp myndaðar á Suðurnesjum
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að framleiðslu þýskra kvikmynda hér á landi þar sem sögusviðið er m.a. náttúra og byggðir Suðurnesja. Þannig hafa umfangsmiklar tökur farið fram í Grindavík og á dögunum fóru fram upptökur í Hvalsneskirkjugarði. Daginn fyrir tökur var auglýst eftir fólki í Sandgerði til að mæta í jarðarförina og að fólk fengi greitt fyrir þátttöku í útförinni.
Það er íslenska kvikmyndafyrirtækið Oktober sem er að þjónusta þýska kvikmyndafyrirtækið Neue Deutsche Filmgesellschaft (NdF) sem í samvinnu við sjónvarpstöðina ZDF í Þýskalandi er að leggja grunn að röð sjónvarpsmynda sem allar gerast á Íslandi.
Sögurnar eru glæpasögur og eru allar aðalsöguhetjurnar íslenskar en leiknar af þýskum leikurum á þýsku. Sögurnar eiga það sameiginlegt að gerast allar hér á landi og draga efnivið sinn úr íslenskum veruleika.
Áætlað er að gera 2-3 myndir á ári næstu 3 árin. Á árinu 2015 verða teknar upp 2 myndir.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á tökustað á Hvalsnesi.