Sandgerðingar lutu í lægra haldi í Útsvari
Mosfellingar höfðu betur í þetta sinn.
Sandgerðingar töpuðu naumt gegn Mosfellingum í spennandi keppni í Útsvari í kvöld. Liðin voru mjög jöfn lengst af og þurfti meðal annars að beita „skæri-blað-steinn“ aðferðinni til þess að útkljá hvort liðið fengi að velja sér flokk í næsta lið þegar stigin voru jöfn, 26 gegn 26.
Það var ekki fyrr en undir lokin, í 15 stiga spurningunum, sem endanleg úrslitin réðust. Lið Sandgerðisbæjar skipuðu þau Bylgja Baldursdóttir, Einar Valgeir Arason og Andri Þór Ólafsson. Þeim fylgdi hópur stuðningsmanna í sal, þeirra á meðal bæjarstjórinn Sigrún Árnadóttir.
Sandgerðingar eru þar með fallnir úr keppni, en þetta er í fyrsta sinn sem bæjarfélagið sendi fulltrúa í Útsvar.
Þess er gaman að geta að í spurningaflokki um sitjandi þingmenn sem hafa ritstýrt blöðum giskuðu Mosfellingar á að þingmaðurinn Brynhildur Pétursdóttir hefði ritstýrt Víkurfréttum, en hún ritstýrði tímariti Neytendasamtakanna, þegar hún var þar formaður.