Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Samið við Gym heilsu um nýjan líkamsræktarsal í Grindavík
Föstudagur 12. september 2014 kl. 10:42

Samið við Gym heilsu um nýjan líkamsræktarsal í Grindavík

Í sumar var auglýst eftir samstarfi við áhugasama aðila um rekstur líkamsræktar í nýrri aðstöðu í Íþróttamiðstöð Grindavíkur. Aðeins einn aðili sýndi því áhuga, Gym heilsa ehf, sem starfrækt hefur líkamsræktarstöðina þar undanfarin misseri. Bæjarráð Grindavíkur samþykkti að ganga til samninga við fyrirtækið og fól bæjarstjóra að undirrita og leggja fyrir bæjarstjórn til staðfestingar. Skrifað var undir samninginn í gær. Frá þessu er greint á heimasíðu Grindavíkur.

Áætlað er að líkamsræktarstöðin opni í öllu sundlaugarhúsinu um mánaðarmótin janúar/febrúar. Ráðist verður í framkvæmdir á sundlaugarhúsnæðinu um leið og nýtt íþróttamannvirki verður opnað en búningsklefar sundlaugar færast þangað yfir. Í gamla sundlaugarhúsinu verður því innréttuð glæsileg líkamsræktaraðstaða og einnig hreyfisalur og þar verður einnig hægt að leigja út aðstöðu til sjúkraþjálfara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gym heilsa (áður Nautilus/Actic) rekur tíu heilsuræktarstöðvar á Íslandi tengdar sundlaugum. Gym heilsa leggur áherslu á að verð á kortum sé sem ódýrast þannig að allir sem vilja hugsa um heilsuna eigi kost á því. Öll kort gilda í líkamsrækt og sund í því sveitarfélagi sem þau eru keypt í.  Allir meðlimir Gym heilsu geta pantað sér tíma með þjálfara til að læra á tækin og fá sérsniðna æfingaáætlun. Þjálfarar eru einnig til taks í salnum (misjafnt eftir stöðvunum hversu mikið þeir eru við) þannig að hægt er að leita til þeirra til að fá aðstoð, nýja æfingaáætlun o.s.frv.