Samdi breiðskífu á núllpunkti
Tónlistarkonan Elíza Newman gaf út breiðskífuna Wonder Days þann 28. október. Breiðskífan samanstendur af tólf frumsömdum lögum en þau voru samin og tekin upp þegar Elíza var að vinna sig upp úr erfiðum veikindum. „Ég átti ekkert inni í bankanum af orku en þessi tónlist verður til þar. Það bjargaði einhvern veginn sálinni minni, ég lifnaði við,“ segir Elíza.
Hún segir að veikindi sín hafi verið ákveðinn núllpunktur í lífi hennar en jafnframt veitt henni innblástur að plötunni. „Þetta sprettur allt frá hugsuninni um það hvort það komi eitthvað þegar maður er algjörlega búinn á því. Fyrst samdi ég fullt af einhverjum hræðilegum lögum en svo allt í einu kom þessi tímapunktur þar sem maður áttar sig á að þetta er ennþá þarna. Það er ótrúlega mikið þakklæti og einlægni sem fylgir því. Innblásturinn er í rauninni bara sá að þetta sé þarna ennþá. Ég er að semja um von og að maður eigi alltaf að halda áfram, ekki gefast upp og að trúa á góðu hlutina. Þetta er mjög jákvæð, opin plata jafnvel þó hún hafi verið samin á erfiðu tímabili, það er mjög gott í hjartað,“ segir Elíza.
Notar tónlist til þess að tjá sig
Elíza hefur alltaf haft gaman af tónlist enda gefur hún henni leiðir til að opna sig. „Ég hef alltaf notað tónlist til að tjá mig og var frekar feimið barn en í tónlistinni gat ég alltaf fundið einhverjar leiðir til þess að opna mig sem svo þróaðist ennþá meira þegar ég varð unglingur og stofnaði hljómsveit og fór að semja lög. Tónlist hefur alltaf talað rosalega til mín frá því ég man eftir mér, ég get ekki ímyndað mér heiminn öðruvísi en fullan af tónlist.“
Elíza segir að á nýju plötunni sé hún að fara aftur í kjarnann þar sem gleðin við að búa til tónlist er í forgangi. „Ég er að njóta þess og er ekki að afsaka það. Þó ég sé ekki tvítug lengur, þá þýðir ekki að ég, og konur almennt, vilji ekki skapa eða búa til hluti. Ég ætla að standa með þessari plötu og njóta þess að hafa búið hana til og vonandi hefur einhver gaman af þessu líka, það er bara bónus. Ég hlakka til að spila, ég ætla að flytja þetta og leyfa plötunni að lifa sínu lífi,“ segir hún.
Óður til kvenna
Lag hennar Ósýnileg, sem er að finna á breiðskífunni, hefur vakið athygli fyrir kröftugan boðskap. Hugmyndin að laginu kviknaði í framhaldi af #METOO byltingunni og segir Elíza það endurspegla líf kvenna í nútímasamfélagi. Lagið öðlaðist meiri dýpt eftir veikindi sem hún gekk í gegnum á Covid tímabilinu en því fylgi mikil einangrun sem leiddi til þess að henni fannst hún í raun ósýnileg.
„Þetta lag er eitt af þessum lögum sem kom bara til mín. Stundum gerist það, maður er kannski að hugsa um eitthvað málefni og þetta sinn var ég að hugsa um #METOO byltinguna og allt sem var að koma fram og fór að velta fyrir mér hvernig þetta endurvarpaðist á mig sem tónlistarmann og hvernig allt er að breytast. Ég samdi þá þetta lag sem kona yfir fertugt, ennþá að skapa og gera hluti. Þetta var mín leið til þess að koma þessum skilaboðum til skila - að við eigum öll rétt á því að vera hérna og eigum öll að taka pláss, ungar konur, eldri konur. Ég hugsaði með mér, annað hvort er þetta hræðilegt lag eða rosalega flott lag. Lagið segir manni svolítið að standa með því sem maður gerir og taka pláss og því ákvað ég bara að láta það standa eins og það er og er mjög ánægð með það,“ segir Elíza.
Hún segir viðtökurnar á laginu hafa verið góðar, þá sérstaklega frá konum. „Þær taka mjög sterkt í þetta og segja mér að þetta tali til sín og ég er rosalega glöð að heyra það. Því þetta er eiginlega samið til kvenna sem hvatning eða óður til kvenna,“ segir Elíza.
Tími rokkara konunnar
Tónlistarmyndbandið við lagið er tekið úr heimildarmyndinni #Hashtag Tour, eftir Margréti Seemu Takyar, sem kemur út á næsta ári en myndin gerist á sama tíma og metoo braust út árið 2017. „Margrét tók myndina sem er framan á plötunni. Við vorum búnar að vera að ræða það að gera myndband saman líka og þegar hún hlustaði á plötuna varð hún fyrir svo miklum hughrifum af þessu lagi og fékk hugmyndina að þessu. Hún hringir svo í mig og segist vera búin að gera myndbandið. Hún átti þetta atriði úr myndinni og fannst það passa sem myndband fyrir þetta lag og það kom svona ótrúlega vel út og gaf laginu aðra vídd,“ segir Elíza. „Ég leik mér oft að fyrirfram ákveðnum hugtökum og klisjum í verkum mínum,“ segir Margrét og bætir við: „Hérna skipti ég út gamla karl rokkaranum einan á hótel herberginu sínu, sem við höfum séð allt of oft í allskonar myndum, og ákvað að tími rokkara konunnar væri komin til að taka sitt pláss og gera þetta á sinn hátt.“
Verður að vera gaman
Elíza segist stefna að því að koma fram og spila plötuna á næstunni en einnig að spila með bandinu Kolrassa Krókríðandi sem gerði garðinn frægan á sínum tíma. „Það eru nokkrir hlutir að gerast í tónlistinni hjá mér á næstunni. Mig langar að spila plötuna og koma fram. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég er að spila á ensku, þannig að það getur vel verið að ég fari eitthvað með þetta til útlanda líka ef það er stemning fyrir því. Kolrassa vaknaði úr værum blundi en við vorum að spila fyrir stuttu síðan og erum að fara að spila á AirWaves helginni líka. Við höfum aðeins verið að dunda okkur við það að semja og það má búast við því að við séum að fara að spila meira. Það er líka þannig að það verður að vera gaman, við erum búin að gera allt hitt. Þannig að ef það heldur áfram að vera gaman, þá getur vel verið að það komi eitthvað nýtt frá okkur,“ segir Elíza að lokum.