Sagnakvöld í Straumi
Fimmtudaginn 14. febrúar kl. 20-22 verður sagnakvöld í Straumi við Straumsvík í boði Hafnarfjarðarbæjar, Viking Circle og sjf menningarmiðlunar.
Hraunin og Hraunafólkið. Hraunin vestur af Straumsvík má flokka sem menningarlandslag því þar má rekja búsetu allt frá landnámstíð fram á miðja síðustu öld. Fjöldi rústa er í Hraununum sem tengjast bæði landbúnaði og sjósókn fyrri tíma, auk þess sem landið er ríkt af örnefnum, gömlum götum og sögnum. Lovísa Ásbjörnsdóttir, jarðfræðingur mun segja frá örnefnum í Hraununum, fornum bæjarhúsum og síðustu ábúendum á Óttarsstöðum eystri og í Eyðikoti sem voru forfeður hennar.
Bernskuminningar. Aðalheiður Guðmundsdóttir, íslenskufræðingur og aðjunkt við Háskóla Íslands, segir frá æsku sinni í Straumi. Fjölskylda Aðalheiðar fluttist að Straumi árið 1971, um það leyti sem hún átti að hefja skólagöngu. Hún segir frá leigubílaferðum sínum til og frá skóla, könnunarferðum um hraunið og nánasta umhverfi, dýralífi í kringum bæinn, óvæntu hlutverki í heimildarmynd, búrekstri foreldra sinna og ýmsu fleiru.
Reykjanesgoði. Haukur Halldórsson, Reykjanesgoði og ábúandi í Straumi, fer vítt og breitt um Reykjanes, þar sem hann fjallar um dísir, álfa, rostunga og jólasveina. Haukur hefur ásamt Sverri Sigurjónssyni, listamanni komið upp magnaðri sýningu Edduheima í Straumi og verður sýningin opin gestum á sagnakvöldinu.
Á milli atriða verður fjöldasöngur og heitt á könnunni. Tilvalið að taka með sér vinkonur og vini og skella sér á sagnakvöld, njóta menningararfleiðar og veitinga.
Bókin Sagnaslóðir á Reykjanesi I sem byggir á efni fyrri sagnakvölda verður á sérstöku tilboðsverði þetta kvöld.
sjf menningarmiðlun ehf . [email protected]
Mynd: Straumur. Ljósmynd: ÓSÁ