Sagði skilið við feimnina
- Jóhannes A. Kristbjörnsson, 2. sæti á lista Viðreisnar
Hvers vegna ákvaðst þú að fara í framboð?
Ég hef fylgst með stjórnmálum í langan tíma og oft orðið fyrir vonbrigðum, bæði með frammistöðu þeirra flokka sem ég hef kosið og með Alþingi í heild. Þegar Viðreisn var stofnað ákvað ég að taka þátt. Valið var í raun þetta: „Ætla ég að láta æviárin líða hjá óánægður eða ætla ég að leggja mitt af mörkum til að reyna að breyta þjóðfélaginu?“ Í Viðreisn fann ég orkuna, hugrekkið og jákvæðnina sem þarf til að takast á við þjóðfélagsbreytingar, almenningi til hagsbóta.
Hvað vilt þú sjá gerast á Suðurnesjum á næsta kjörtímabili?
Ég sé fullt af tækifærum. Mikilvægt er að sveitarfélögin leiti leiða til enn nánara samstarfs, jafnvel með sameiningu sveitarfélaga. Uppbygging flugvallarsvæðisins og tengdrar starfsemi er lykilatriði og þurfa sveitarfélögin einmitt að standa saman hvað það varðar. Varðveisla og þróun Reykjanesfólkvangs þarf að halda áfram. Málefni ferðamanna ættu að vera Suðurnesjunum hugleikin og nýta þarf þar frumkvöðlakraftinn sem býr í okkur heimamönnum. Bæta þarf samgöngur því umferðaröryggi er verulega ábótavant, bæði á Reykjanesbrautinni sem Grindavíkurvegi. Byggja þarf upp innviði ferðamannaiðnaðarins og innheimta fyrir það sanngjarnt gjald. Suðurnesjamenn þurfa að leggja höfuðið í bleyti hvað varðar úrræði í málefnum aldraðra og bæta stöðuna í heilbrigðismálum almennt, en staða Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er óviðunandi. Þróa þarf áfram hafnarstarf og tryggja viðunandi stöðu sjávarútvegsins.
Hverja telur þú möguleika þíns framboðslista í kjördæminu í kosningunum í lok mánaðarins?
Ég skynja sterkt ákall um breytingar. Viðreisn er nýtt og öflugt stjórnmálaafl sem vill leiða ábyrgar kerfisbreytingar í gjaldmiðilsmálum, í sjávarútveginum, í landbúnaðarkerfinu og aðlaga stjórnarskrána að 21. öldinni. Viðreisn trúir á jafnrétti kynjanna og hugvit frjálsra einstaklinga. Hvert sem ég hef farið hef ég notið jákvæðrar viðtöku. Ég tel Viðreisn eiga möguleika á að ná meira fylgi en nokkur ný stjórnmálahreyfing síðustu áratugina og verða afl jákvæðra breytinga til framtíðar.
Hvað færð þú þér oftast í morgunmat?
Lýsi, ab-mjólk og múslí.
Hvar lætur þú klippa þig?
Bylgja Sverrisdóttir, kjarnakona, hefur séð um að snyrta á mér kollinn.
Uppáhalds útvarpsmaður?
Love Guru, Þórður Helgi Þórðarson. Er annars mikill Bylgju hlustandi og aðdáandi morgunútvarpsins.
Hver væri titill ævisögu þinnar?
Lifðu lífinu lifandi maður!
Innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar?
Skynsamlegasta ákvörðunin, bæði fyrir ferðamannaiðnaðinn og landsmenn alla, væri að samtvinna alþjóða- og innanlandsflugvöll.
Fallegasti staður á Suðurnesjum?
Klettarnir við Reykjanesvita í góðum rigningarstormi á háflóði!
Hver er besta ákvörðun sem þú hefur tekið?
Annars vegar að ákveða að segja skilið við feimnina og hins vegar að huga að ástinni á hverjum degi.
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í?
Ætli það hafi ekki verið aftanákeyrsla á gatnamótum Hringbrautar og Vatnsnesvegar í Keflavík árið 1993. Var uppábúinn í skrautbúning lögreglumanna á leið í útskrift frá Lögregluskóla ríkisins, með ræðu fyrir hönd nemenda í höndunum. Enginn slasaðist sem betur fer og þegar ég loks mætti í útskriftina var öll streita á bak og burt!
Dagblað eða net á morgnana?
Net.
Sameinuð sveitarfélög á Suðurnesjum eða áfram eins og nú?
Öll rök renna til sameiningar! Misgóður fjárhagur letur, sem og misgóðir möguleikar til tekjuöflunar. Grindavík er fyrirmyndarsveitarfélag okkar Suðurnesjamanna og mögulega væri ráðlegra fyrir sum sveitarfélögin að líta þangað eftir bæjarstjóraefnum en til Vestmannaeyja.