Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sagan í aðalhlutverki á Menningarviku Grindavíkur
Fimmtudagur 9. mars 2017 kl. 17:00

Sagan í aðalhlutverki á Menningarviku Grindavíkur

Fjölbreytt dagskrá að vanda

Mikið og fjölbreytt menningarlíf bíður Grindvíkinga og gesta þeirra en vikuna 10. til 19. mars verður haldin Menningarvika þar í bæ. Menningarvika Grindavíkur er nú haldin í níunda sinn og að vanda er dagskráin fjölbreytt.

Björg Erlingsdóttir tók við starfi sviðstjóra frístunda- og menningarsviðs hjá Grindavíkurbæ í byrjun desember. Hún kann vel við sig í litlu samfélagi eins og Grindavík. „Hér er sko engin ládeyða og allt á leið fram á við. Grindvíkingar láta í ljós skoðanir sínar og það kann ég vel við,“ segir Björg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum að fókusa á orðið saga að þessu sinni. Þegar maður hugsar um orðið þá er það svo margt. Hvort sem við tengjum það mannkynssögu, sögu einstaklinga, skáldsögu eða jafnvel sögu Grindavíkur. Eitt af því sem við gerum er að hafa kvöld í Gjánni þar sem Grindvíkingar, innfæddir og aðfluttir koma og segja sína sögu. Þeir eru frá öllum heimsins hornum og þannig verður hægt að fá keim af ólíkum heimum.“ Forseti Íslands er meðal þeirra sem boðað hafa komu sína á þann viðburð. Sjálf er Björg aðflutt. Hún ólst upp á Akureyri þar sem hún lauk menntaskóla. Hún er með BA-próf í þjóðfræði frá Háskóla Íslands og master ásamt sérnámi í safnafræðum frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Björg hefur undanfarin ár verið sviðsstjóri miðlunarsviðs Listasafns Íslands en áður var hún í sjö ár á Höfn í Hornafirði sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar.

„Menningarlífið í Grindavík er öflugt en það má þó alltaf bæta. Grindvíkingar eru miklir söngmenn að mér sýnist. Þeir eru duglegir að skapa sjálfir og eru ekki alltaf að fá aðkomandi aðstoð í þeim efnum. Það er mikilvægt að maður sé ekki bara þiggjandi heldur gefandi.“

Eins og áður segir er fjölbreytt dagskrá framundan í Grindavík. Handverksmarkaður verður í Gjánni, fyrirlestrar haldnir í Kvennó og félagsmiðstöðin Þruman mun starfrækja útvarpsstöð. Stjörnufræðingurinn Sævar Helgi skoðar himingeiminn með Grindvíkingum og Sprengju-Kata heimsækir nemendur unglingastigs. Tvær leiksýningar eru í boði fyrir börn og foreldra, önnur er brúðuleiksýningin Íslenski fíllinn sem sýndur verður í Hópsskóla og í Kvennó mætir Kólumbus á ferð sinni um Norðurhöf.

Dagskrá Menningarvikur 

Sem fyrr er uppstaðan í Menningarvikunni framlag heimamanna auk þess sem fjöldi landsþekktra listamanna og skemmtikrafta sækja Grindvíkinga heim. Undanfarin ár hefur Menningarvikunni verið vel tekið og Grindvíkingar duglegir að taka þátt og njóta þess fjölbreytta úrvals viðburða sem í boði er. Allir leggjast á eitt við að bjóða upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá og eru Grindvíkingar hvattir til að nýta sér tækifærið og fjölmenna á menningarviðburðina.