Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 14. október 1999 kl. 14:05

SAGA KEFLAVÍKUR 1920-1949

Glöggum lesendum staðarblaðanna ætti ekki að dyljast það, að þriðja bindi Sögu Keflavíkur er nú komið út og er mun þykkara en fyrri bindin tvö. Spannar það mikið framfara- og uppbyggingartímabil í sögu byggðarlagsins. Formlegur útgáfudagur var föstudaginn 17. september, er bókin var kynnt í Selinu í Njarð-vík og sala hófst jafnframt á henni hjá Bókabúð Keflavíkur, sem annast dreif-ingu hennar.. Enn er þó eftir ritun merkilegs kafla í sögu Keflavíkur sem bæjar, allt þar til Keflavík, Njarðvík og Hafnir sameinast árið 1994. Er vonandi, að þess verði ekki langt að bíða, að þeim kafla verði gerð góð skil í næsta bindi Sögu Kefla-víkur, meðan sagan er enn fersk í hugum manna. Jafnvel ekki víst, að eitt bindi dugi til, því tímabilið 1950-1994 var viðburðaríkt. Sögunefndin gerði sér strax grein fyrir því, að vandasamt yrði að rita síðustu bindin, er nálgast tæki nútímann. Atburðir eru þá mörgum enn í fersku minni og því hætt við, að ýmsum þyki of lítið gert úr sínum hlut og sinna ættingja eða vina. Menn hafa einnig mismunandi áherzlur. Sumum finnst vafalaust of lítið gert úr mikilvægi vissra þátta atvinnulífsins, en alltof mikilli prentsvertu eytt í t.d. dæmis, lýsingu á íþrótta- og félagslífi, en aðrir eru svo aftur á móti á önd-verðum meiði. Í 38. tölublaði Víkurfrétta, 23. september s.l., birtust fyrstu athugasemdir við söguritunina. Bæjarstjórn höfðu borizt athugasemdir frá sama manni, allnokkru áður en bókin kom út og fór í sölu. Ekki veit ég, hvaðan hann hefur fengið bók-ina, en örugglega ekki frá sögunefndarmönnum, ritstjóra eða söluumboði Til ritunar sögunnar var fenginn sagnfræðingurinn Bjarni Guðmarsson. Tel ég, að þar hafi vel til tekizt og vart hægt að fá betri og skemmtilegri penna, með þessi réttindi. Ef til vill er það hluti sagnfræðinámsins að gildismat atburða verður nokkuð annað en t.d. hjá sögunefndarmönnum. Við því er lítið að gera. Ritstjóri fékk nefndarmönnum til yfirlestrar kafla bókarinnar, eftir því sem sögurituninni miðaði. Er rituninni var lokið, fengu nefndarmenn síðan nokkurskonar próförk að bókinni. Veit ég ekki betur, en þeir hafi allir lesið þessi gögn vand-lega yfir, enda komu frá þeim ýmsar athugasemdir, bæði við málfar og efnistök, sem ritstjóri tók margar hverjar til greina. Mættu ýmsir greinahöfundar læra af því, hversu nauðsynlegur prófarkalestur er. Aldrei fer þó svo, að mönnum sjáist ekki yfir eitthvað. Er lokið var prentun bókarinnar, kom í ljós, að nokkur mistök höfðu orðið við setningu myndtexta. Nefndin samþykkti að láta leiðréttingarblöð fylgja bókinni, og hefur nú væntanlega verið lokið við að stinga þeim inn í bókina og jafnframt koma leiðréttingar-blöðum til þeirra, sem nú þegar hafa keypt hana. Jafnframt hefur komið í ljós, að ekki hefur fyllilega verið hægt að treysta öllum þeim upplýsingum, sem ritstjóri hefur fengið. Má þar til að mynda taka sem eitt lítið dæmi dæmi, að sagt er í kaflanum um mjólkursölumál á bls. 227, að neyzlumjólk frá Vatnsnesi hafi verið seld hjá Ágústu Sigurjónsdóttur að Hafnargötu 51. Þetta er rangt, því Ágústa seldi aldrei mjólk. Höfundur athugasemdanna telur, að ekkert sé sagt um Sparisjóðinn í Keflavík utan það, að hann hafi verið rekinn með tapi árin 1936 og 37. Á bls. 203 í öðru bindi bókarinnar er sagt frá stofnun hans, og einnig er talað nokkuð um hann á bls. 229 í sama bindi. Einnig kvartar hann yfir, að ekki sé minnzt á Jónínu Guðjónsdóttur á Framnesi, sem stjórnað hafi bindindisstarfi í þágu barna og unglinga, ásamt Guðlaugu systur sinni. Vissulega unnu þær systur merkt starf, þó ekki hafi nú öll börnin orðið bindindismenn til frambúðar. Sagt er frá stofnun barnastúkunnar Nýársstjörnunnar, falli hennar og endurreisn á bls. 274 í öðru bindi bókarinnar, og jafnframt getið þar um þátt þeirra systra í stofnun hennar og starfsemi. Varðandi þátt séra Eiríks Brynjólfssonar, prests í Útskálaprestakalli, í menn-ingarlífi Keflavíkur, er rætt um kórstjórn hans á bls. 321-322 og störf hans í þágu unglingaskólans á bls. 407-410 í nýútkomnu 3. bindi. Ekki er heldur alveg rétt með farið, að hvergi sé sagt frá Olíusamlagi Keflavíkur og nágrennis, þótt um megi deila, hvort nóg sé sagt. Á bls. 118 er mynd af olíugeymi og afgreiðsluskúr olíusamlagsins, og á 119. blaðsíðu er lítillega sagt frá stofnun þess. Reynt er að byggja söguritun sem mest á traustum, rituðum heimildum og erfitt til fanga, ef þær brestur. Það er því vissulega mikilvægt fyrir sögunefnd og ritstjóra að fá fram athugasemdir og gagnrýni. Umræður og gagnrýni benda til áhuga á málefninu, en lesendur verða þó að gera sér grein fyrir því, að það er eins með byggða- og ævisögur, að þær verða aldrei fullsagðar, hversu vel sem vandað er til ritunar þeirra. Björn Stefánsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024