Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Saga bændaútgerðarinnar í Vogum og á Vatnsleysuströnd rakin í nýrri bók
Haukur Aðalsteinsson er höfundur bókarinnar Út á Brún og önnur mið - Útgerðarsaga Vatnsleysustrandarhrepps til 1930.
Laugardagur 29. október 2022 kl. 08:59

Saga bændaútgerðarinnar í Vogum og á Vatnsleysuströnd rakin í nýrri bók

Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar hélt útgáfuhóf um liðna helgi vegna útgáfu bókarinnar Út á Brún og önnur mið - Útgerðarsaga Vatnsleysustrandarhrepps til 1930 eftir Hauk Aðalsteinsson. Minjafélagið gefur bókina út.

Í bókinni er rakin saga bændaútgerðarinnar í Vogum og á Vatnsleysuströnd allt frá elstu fáanlegu heimildum fram á þriðja áratug tuttugustu aldar þegar vélbátar höfðu leyst árabátana af hólmi. Sagt er frá áhrifum Viðeyjarklausturs á svæðinu, konungsútgerð, spítalafiski, sjósókn, netaveiðideilum, saltfiskverkun, sjóbúðum og þilskipaútgerð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bókin byggir á viðamikilli könnun frumheimilda í fornbréfasafni, Þjóðskjalasafni og fleiri skjalasöfnum sem gefur í mörgum tilfellum nýja sýn á söguna, bæði sögu svæðisins sem og sjósóknar. Hún er öllum áhugasömum um útgerðarsögu fróðleg lesning og fræðandi um lífshætti þeirra sem sóttu sjóinn og byggðu landið fyrr á öldum.

„Útgáfuhófið var frábært. Fjölmargir komu og nutu þess að hlusta á upplestur úr bókinni, frásögn af tilurð hennar, veitinga, tónlistar og samveru,“ segir Helga Ragnarsdóttir hjá Minja- og sögufélagi Vatnsleysustrandar.

Viktor Guðmundsson les úr útgerðarsögunni. Haukur Aðalsteinsson, höfundur bókarinnar, áritar eintak af henni.