Safnaði yfir 1000 smágjöfum og 368 jólagjöfum
Eins og við höfum greint frá áður hér á vf.is og í Víkurfréttum, þá stóð Styrmir Barkarson í Reykjanesbæ fyrir söfnun á gjöfum nú í aðdraganda jóla. Gjafirnar voru fyrst hugsaðar sem aðstoð við jólasveinana sem virðast ekki alltaf komast í öll hús til að gefa skógjafir. Söfnunin fékk hins vegar byr undir báða vængi og varð mun stærri en upphaflega stóð til.
Alls söfnuðust rúmlega 1000 smágjafir í skóinn, auk föndurhluta ýmiskonar, bíómiða og fleira sem nýttist í aðdraganda jóla. Þá hefur Styrmir einnig safnað saman 368 jólagjöfum. Hann hefur bæði tekið við gjöfum frá einstaklingum og fyrirtækjum og einnig hafa borist fjárframlög sem nýtt hafa verið til að kaupa gjafir. Gjarfirnar eru bæði fyrir stráka og stelpur, börn og unglinga.
Styrmir hefur afhent gjafirnar til Keflavíkurkirkju sem síðan hefur komið þeim á rétta staði í gegnum Velferðarsjóð Suðurnesja og Hjálpræðisherinn.
Söfnun stendur enn yfir og leggja má henni lið með framlagi á söfnunarreikninginn 0542-14-403565 á kennitölu 281080-4909.