Safna fyrir góðum málefnum með jólabingói
Jólabingó Kvenfélags Grindavíkur verður haldið næsta sunnudag, 20. nóvember. Bingóið er ein af stærstu fjáröflunarleiðum félagsins en kvenfélagskonur hafa í gegnum tíðina verið óþreytandi við að styrkja ýmis góð málefni og lagt á sig óeigingjarna sjálfboðavinnu.
Að sögn Sólveigar Ólafsdóttur, formanns Kvenfélags Grindavíkur, hafa fyrirtæki í bæjarfélaginu og víðar verið dugleg við að gefa vinninga á bingóið. Bingó fyrir börn hefst á sunnudaginn klukkan 14:00 en fyrir fullorðna klukkan 20:00. Bingóin verða haldin í grunnskólanum við Ásabraut.