Sækir innblástur úr náttúrunni
- Listakonan Solla Magg er með þrjár bækur í vinnslu
Solla Magg, eins og hún er kölluð, er 61 árs, fjögurra barna móðir, átta barna amma og á fjögur ömmubörn á ská. Solla er upphaflega Reykvíkingur en bjó á Patreksfirði í 34 ár. Leiðir Sollu lágu til Reykjanesbæjar árið 2000 og hefur hún verið þar meira og minna síðan þá. Hún flutti til Reykjanesbæjar til að vera nær börnum og barnabörnum.
Með meistaragráðu í nuddi
Solla er með meistaragráðu í nuddi, lærður svæðanuddari og svo lærði hún sérhæft festumeinanudd. Solla er einnig sjúkraliði, en hún stefnir að því að fara að nudda hér í Reykjanesbæ, en áður hefur hún verið á stofu í Breiðholtinu.
Árið 1988 fór hún í nudd og á sjúkraliðabraut. Hún var alltaf að semja ljóð á þessum tíma sem öll enduðu í skúffunni. „Ég var svoddan skúffuskáld í mér þar til árið 2009 þegar ég ákvað að setja þau í bók og henda í prentun og það gekk bara mjög vel,“ segir hún.
Útskrifaðist ekki af sjúkraliðabraut fyrr en árið 2006
Þrátt fyrir að Solla hafi farið í nuddið og sjúkraliðabraut árið 1988 þá útskrifaðist hún ekki sem sjúkraliði fyrr en árið 2006, þar sem hún ætlaði einungis að vera nuddari. Aðspurð hvað varð til þess að hún ákvað að klára sjúkraliða námið svo mörgum árum seinna kveðst hún hafa farið í Fjölbrautarskóla Suðurnesja af rælni á opinn dag. „Þá bjó ég á Hafurbjarnastöðum þar sem ég rak hundahótel á árunum 2000 til 2005. Þar var ég hvött áfram til að klára námið sem ég og gerði þar sem ég átti bara mjög lítið eftir af náminu.“
Var alltaf að semja ljóð
En eins og hefur komið fram að þá var Solla alltaf að semja ljóð á þessum tíma. „Þá var ég alltaf með fullt hús af börnum og skrifaði þá bara niður og geymdi. Svo þegar maður fékk sér tölvu þá fóru hjólin að snúast við að setja þetta allt saman niður og var það svo árið 2010 sem fyrsta ljóðabókin var gefin út. Árið 2012 kom svo ljóðabók númer tvö út og er hún uppseld,“ segir hún. Solla er einnig með aðra ljóðabók í skrifum sem væntanleg er eftir áramót ásamt barnabók og spennusögu sem hún vonast til að verði komið út á nýju ári.
Solla fær innblástur við ýmis tækifæri, til dæmis þegar hún er að keyra eða á gangi úti í náttúrunni. „Það hefur alltaf blundað í mér að skapa eitthvað eins og að skrifa ljóð frá því ég var unglingur. Það bara kemur einhvern veginn til mín þegar ég er að keyra eða labba úti í náttúrunni.“ Uppáhalds ljóð Sollu er Jólagrín sem er úr annarri bók hennar. Einnig heldur hún mikið upp á ljóðið sitt Ég vildi vera sem er úr fyrstu ljóðabók hennar.
Stefnan var tekin á leiklistarnám
En þetta er ekki allt það sem Solla hefur fyrir stafni, því hún hefur einnig sett upp og skrifað tvö stutt gamanleikrit sem hafa verið sett upp. Amma í stuði með guði heitir annað, en hitt heitir Saltverkunarhúsið. Svo er Solla einnig mjög listræn og málar.
En hvernig kom það upp að hún skrifaði og setti upp gamanleikrit? „Ég hef bara svo mikla löngun og þrá í að skapa eitthvað, ég bjó til heilu fantasíurnar í huganum við tónlist. Ég lék sjálf mikið í leikritum á Patreksfirði og var í leikfélaginu þar. Ég byrjaði fyrst árið 1978, þá sýndum við í Kópavogsleikhúsinu og í Hafnarfirði. Þessi leikrit voru sett upp á Reykhólum árið 2008 og 2009, þar sem ég er formaður leikfélagsins. Það var afar skemmtilegt fólk sem tók þátt í leikgleðinni og það var mikill söngur, en ég samdi ekki lögin heldur leikritin í kringum lögin. Mig hefur alltaf fundist rosalega gaman í leikhúsi og að leika, stefnan var alltaf tekin á að fara í leiklistarnám. Ég fór á fyrsta leiklistarnámskeiðið 15 ára gömul, þar lærði ég tjáningu og upplestur, þá var stefnan alfarið að fara í leiklistarnám sem varð svo ekki. Ég endaði svo sem nuddari og sjúkraliði með leiklistina til hliðar sem var mitt aðaláhugamál.“
Hvenær kviknaði áhuginn á nuddinu og hvernig kom það til að nuddið fór fram fyrir leiklistina? „Jósep Blöndal læknir á Stykkishólmi uppgötvaði mig og hvatti mig áfram, hann á stærsta þáttinn í að ég fór út í þetta. Ég byrjaði að læra hjá honum festumeinanudd, hann kenndi mér það. Svo það var hann sem kom mér af stað í nuddið.“
Innblástur úr sveitinni
Solla er í myndlistarskólanum í Kópavogi einu sinni í viku en hún byrjaði að mála fyrir tveimur árum síðan. Það var alveg yndisleg manneskja úr Garðinum sem kveikti áhuga minn á að byrja að mála. Hún var alltaf að hvetja mig áfram og þannig byrjaði þetta allt saman. Ég prufaði mig áfram og hef ég verið alveg óstöðvandi síðan.“
Innblásturinn fær Solla í sveitinni. „Sonur minn á jörð í Efri-Tungu í Örlygshöfn. Þangað fer ég um leið og sólin hækkar á himni og vorið kemur. Ég fer eins oft og ég mögulega get, en ég eyði miklum tíma yfir sumarið þar. Ég bara finn einhverja ró og kyrrð í sveitinni. Svo er einfaldlega yndislegt að fara í fjöruna og hlusta á hafið, allir svona hlutir geta fengið mig til að skapa eitthvað ásamt bara litlum fugli.“
Solla finnur fyrir mikilli ró í kringum dýr, henni finnst lífið svo merkilegt ásamt allri sköpun og hefur ákaflega gaman af að skoða allt í náttúrunni. „Ef það verður eitthvað á vegi mínum þá spái ég í það og finnst það mjög gaman.
Viðtalið tók Ragna Dögg Marinósdóttir, nemandi í fjölmiðlafræði.