Sabína Siv sigraði Hljóðnemann
Söngkeppni Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Hljóðneminn var haldinn í gærkvöldi í gamla leikhúsinu, Andrews uppá Ásbrú. Sabína Siv Sævarsdóttir, 16 ára stúlka úr Sandgerði, stóð uppi sem sigurvegari með lagið You Lost Me með Christinu Aguilera.
„Ég hef verið að læra söng í Söngskóla Maríu en áður stundaði ég nám í Tónlistarskóla Sandgerðis,“ sagði Sabína. „Ég stefni á að gera eitthvað í framtíðinni sem tengist söng en er ekki alveg búin að plana það.“
Um 400 gestir mættu til að hlusta á keppendur syngja en þeir voru 14 talsins þetta skiptið og telst það góð þátttaka. Kynnir kvöldsins var enginn annar en Þorsteinn Guðmundsson og má segja að sumir hafi grátið úr hlátri enda fór hann á kostum. Umgjörð keppninnar var með eindæmum glæsileg og segja reynsluboltar að þetta sé ein af þeim flottari keppnum sem haldin hefur verið.
[email protected] - Ljósmynd: Sölvi Logason